„Ég hélt að þetta væri búið“

Agla María Albertsdóttir í baráttu um boltann gegn HK/Víkingi
Agla María Albertsdóttir í baráttu um boltann gegn HK/Víkingi mbl/Arnþór Birkisson

„Þetta var rosalegt,“ sagði Agla María Albertsdóttir við mbl.is eftir að hún tryggði Breiðabliki ótrúlegan sigur á HK/Víkingi, 2:1, nánast með flautumarki í uppbótartíma í Pepsi Max-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Breiðablik var með gríðarlega yfirburði í leiknum, átti 28 tilraunir að marki og 18 á rammann, en vann svo eftir sannkallaða hádramatík.

„Það er ótrúlegt að staðan hafi verið 1:1 þegar voru komnar 93 mínútur á klukkuna. Við áttum að vera búnar að skora fleiri mörk, en ég er mjög fegin að við höfum unnið þennan leik,“ sagði Agla María og viðurkenndi að þetta sé sennilega dramatískasta mark sem hún hefur skorað.

„Já, ég held það. Ég hef ekki mikið verið að skora mark á 93. í stöðunni 1:1 áður,“ sagði Agla María, en Audrey Baldwin var hreint frábær í marki HK/Víkings. Af hverju náði liðið samt ekki að skora?

„Hún átti frábæran leik í markinu, hún var að verja skot frá Selmu alveg við stöngina. Karó var svo að skjóta rétt framhjá, ég var að skjóta framhjá og þetta var bara óheppni. Ég viðurkenni það alveg að ég hélt að þetta væri búið, en maður hættir ekkert fyrr en er flautað. Við héldum alltaf í vonina,“ sagði Agla María.

Breiðablik er því enn með fullt hús stiga á toppnum, eins og Valur, en liðin mætast einmitt í næstu umferð.

„Þetta gefur okkur mikið og það er líka svo mikilvægt að fara með þrjú stig inn í næsta leik. Þá telur hann eitthvað fyrir okkur,“ sagði Agla María Albertsdóttir, hetja Breiðabliks, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert