Heldur markaþurrðin áfram hjá Stjörnunni?

Magdalena Anna Reimus í baráttu við Maríu Sól Jakobsdóttur og …
Magdalena Anna Reimus í baráttu við Maríu Sól Jakobsdóttur og Maríu Evu Eyjófsdóttur í leik Stjörnunnar og Selfoss í 1. umferð Pepsi Max-deildarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír leikir fara fram í 10. umferð Pepsi Max-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld þar sem Valur á möguleika á að ná þriggja stiga forskoti í toppsæti deildarinnar.

Valur og Breiðablik eru með 25 stig eftir níu leiki en Valskonur tróna í toppsætinu á betri markatölu. Valur sækir Þór/KA heim í kvöld en Akureyrarliðið er í þriðja sæti deildarinnar með 17 stig. Þegar liðin áttust við á Origo-vellinum í 1. umferðinni vann Valur öruggan 5:2 sigur en norðankonur komu fram hefndum og sló Val út í 8-liða úrslitunum Mjólkurbikarkeppninnar með 3:2 sigri á heimavelli.

Á Nettóvellinum í Keflavík verður nýliðaslagur þegar Keflavík og Fylkir eigast við. Keflavík er í næst neðsta sæti deildarinnar með 6 stig en Fylkir er stigi á undan í áttunda sætinu. Fylkir hafði betur í fyrri leik liðanna í Árbænum 2:1.

Á Selfossi taka heimakonur á móti Fylki. Selfoss er í 4. sæti deildarinnar með 13 stig en Stjarnan er með 10 stig í fimmta sætinu. Garðabæjarliðinu hefur gengið afleitlega að skora mörk en liðið hefur spilað fimm leiki í deildinni í röð án þess að skora og hefur aðeins náð að skora 5 mörk í fyrstu níu leikjunum.

Þegar liðin áttust við í Garðabænum í 1. umferðinni marði Stjarnan 1:0 sigur en Stjarnan fékk í síðustu viku til liðs við tvo erlenda sóknarmenn sem er ætlað að hressa upp á sóknarleik liðsins. Selfoss sló Stjörnuna út í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarkeppninnar með 3:2 sigri í Garðabænum.

Leikir kvöldsins:

18.00 Þór/Akureyri - Valur
19.15 Keflavík - Fylkir
19.15 Selfoss - Stjarnan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert