„Landsliðið – Nei fyrirgefðu, Valsliðið“

Eiður Benedikt Eiríksson og Pétur Pétursson á hliðarlínunni á Akureyri.
Eiður Benedikt Eiríksson og Pétur Pétursson á hliðarlínunni á Akureyri. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Mér fannst bara landsliðið spila frábærlega í dag. Nei fyrirgefðu, Valsliðið meina ég. Ég ætlaði ekki að segja landsliðið,“ sagði Pétur Pétursson þjálfari Vals, léttur í bragði við mbl.is eftir 3:0 sigur á Þór/KA í 10. umferð Pepsi-Max deildar kvenna í knattspyrnu nú í kvöld.

„Mér fannst við bara spila þennan leik eins og Þór/KA hefur verið að spila á móti okkur og mér fannst það ganga mjög vel upp. Þannig að landsliðið mætti pressuliðinu í dag og landsliðið vann.“

Valsliðið tapaði gegn Þór/KA hér fyrr í sumar í bikarnum. Aðspurður hvort það hafi gefið liðinu blóð á tennurnar sagði Pétur: 

„Við töpuðum hérna í fyrra líka. Ég held að það sé ansi langt  síðan að Valur vann síðast leik á móti Þór/KA hérna á Akureyri. Þannig það var kominn tími til að landsliðið kæmi hérna og myndi vinna,“ sagði Pétur.

„Það er alltaf erfitt að koma hérna og spila á móti Þór/KA, þær eru með hörku lið. Eru vel skipulagðar, líkamlega sterkar og eru með leikplan sem er erfitt að spila á móti. En annað markið drap leikinn mjög mikið niður fannst mér.“

Málfríður Erna Sigurðardóttir er kominn aftur í lið Vals eftir að hafa tekið sér tímabundna pásu frá knattspyrnu. Pétur er að vonum sáttur við að fá Málfríði aftur inn í hópinn.

„Það er frábært að fá hana til baka aftur. Við erum að missa Mist [Edvardsdóttur] út í meiðsli. Thelma [Björk Einarsdóttir] er búinn að vera meidd og við erum að missa Fanneyju [Bergdísi Fanneyju Einarsdóttur] í skóla. Þannig Fríða kemur inn í þetta hjá okkur og það er bara frábært fyrir Val og okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert