„Aular að klára þetta ekki“

Einar Karl Ingvarsson.
Einar Karl Ingvarsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mjög fúlt að tapa þessu niður,“ sagði Einar Karl Ingvarsson, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Víkingi R. í Pepsi Max-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Valsmenn komust í 2:0 en fengu jöfnunarmark á sig á 88. mínútu.

„Við ætluðum að koma ákveðnir inn í leikinn og sækja þrjú stig. Það gekk ekki og er bara frekar ömurlegt eftir að staðan hafði verið 2:0. Við duttum kannski of mikið niður, en við eigum að geta komið í veg fyrir þessi mörk,“ sagði Einar Karl, en þetta er ekki í fyrsta sinn í sumar sem Valsmenn ná ekki að klára leiki af fullum krafti.

„Svona hefur þetta verið stundum, við þurfum bara að halda fókus og klára leikina. Það er alltaf leiðinlegt að tapa niður leikjum og við vildum vinna þennan,“ sagði Einar Karl. Valur spilaði síðast í Slóveníu á miðvikudag í forkeppni Meistaradeildarinnar. Hann vildi ekki meina að ferðalagið hefði setið í liðinu.

„Nei, alls ekki. Við vorum bara aular að klára þetta ekki,“ sagði Einar Karl, en með sigri hefði Valur komist upp í fimmta sætið og verið aðeins þremur stigum frá 2.-3. sætinu. Hvert er markmið liðsins það sem eftir er sumars?

„ Eins og staðan er núna horfum við bara á næsta leik og ætlum þar að taka þrjú stig,“ sagði Einar Karl Ingvarsson, leikmaður Vals, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert