Mér er sama um einhvern markadrottningatitil

Elín Metta Jensen, lengst til hægri, svekkt eftir leikinn í …
Elín Metta Jensen, lengst til hægri, svekkt eftir leikinn í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Elín Metta Jensen var fremst í flokki þegar Valsmenn gerðu jafntefli við Blika í „úrslita“-einvígi Pepsi Max-deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Hún var að vonum svekkt að fá ekki að fagna sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli fyrir lokaumferðina en Blikar náðu að lengja biðina með marki í uppbótartíma.

Hún sagði: „Ég er hrottalega svekkt núna en svona fyrirfram hefðum við alveg tekið þessum úrslitum. Þetta var svolítið erfitt hjá okkur í dag. Í fyrri hálfleik vorum við að ströggla við vindinn og náðum okkur ekki almennilega á strik og það hélt eiginlega áfram hjá okkur inn í seinni.“

„Það voru auðvitað færi á báða bóga í þessum leik, við hefðum getað skorað, þær hefðu getað skorað. Ég átti gott skot í seinni hálfleik sem Sonný varði alveg mjög vel fannst mér. Það var auðvitað gott að ná ekki okkar besta leik en samt að ná þessum úrslitum. Við höldum áfram og vonandi náum við að klára þetta,“ segir Elín Metta.

„Við erum að fara að mæta Keflvíkingum og mér finnst þær hafa verið mjög góðar í sumar og eiginlega mjög skrítið að þær séu fallnar. Auðvitað horfum við á það hvernig leikurinn spilaðist á móti þeim seinast en þar segja úrslitin alls ekki allt (leikurinn fór 5:1 fyrir Val). Ég hef ekki enn orðið Íslandsmeistari og mér er sama um einhvern markadrottningatitil, ég vil bara vinna þann stóra,“ segir Elín Metta og er greinilega farin að hugsa strax um síðasta leikinn í mótinu.

Biðin á Hlíðarenda hefur staðið síðan Valskonur urðu síðast Íslandsmeistarar 2010, þær ættu að geta beðið sex daga í viðbót. Ef þær klára Keflvíkinga er titillinn þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert