Get ekki hætt og byrjað aftur núna

Helgi Valur Daníelsson reynir að hindra skot Erlings Agnarssonar í ...
Helgi Valur Daníelsson reynir að hindra skot Erlings Agnarssonar í Árbænum í kvöld. mbl.is/Hari

Það var frábært að ná að klára þetta þarna undir restina, sagði Helgi Valur Daníelsson, leikmaður Fylkis, í samtali við mbl.is eftir 3:1-sigur liðsins gegn Víkingi í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, á Würth-vellinum í Árbænum í 20. umferð deildarinnar í kvöld.

„Það var langt síðan við spiluðum síðast og menn voru því mjög tilbúnir í leikinn. Við gerðum vel í að pressa þá í fyrri hálfleik en hefðum mátt vera beittari fyrir framan markið. Við hefðum hæglega getað skorað nokkur mörk í fyrri hálfleik og þá hefði þetta vissulega orðið smá þægilegra. Það var algjör óþarfi að fá þetta mark á sig eftir fast leikatriði en við höfum verið að koma sterkir inn undir lok leikja í sumar. Við höfðum þess vegna fulla trú á því allan tímann að við gætum lokað þessum leik sem við og gerðum og ég er ánægðastur með það að við misstum aldrei trúna.“

Fylkismenn eru komnir í fimmta sæti deildarinnar í 28 stig og Helgi ítrekar að það hafi verið ákveðinn stígandi í síðustu leikjum liðsins eftir brösótta byrjun.

„Ég er duglegur að hanga á fjær og þegar boltinn kemur þangað þá reyni ég iðulega að pota mér fram fyrir varnarmanninn og það tókst í kvöld. Ég skallaði hann rétt í þetta skiptið og það var mjög ljúft að sjá hann inni. Það hefur vantað smá stöðugleika hjá okkur í sumar þar sem við höfum verið að tapa stigum í leikjum sem við eigum að klára. Það hefur hins vegar verið góður stígandi í þessu og við höfum verið mjög sterkir á heimavelli að undanförnu. Við erum alltaf að læra og fimmta sætið í deildinni er gott að mínu mati þótt deildin hafi spilast mjög skringilega í sumar.“

Helgi Valur hljóp manna mest í Árbænum í kvöld og viðurkennir að honum líði vel í skrokknum.

„Ég verð samningslaus núna í október og ég er orðinn 38 ára gamall. Það er bara annaðhvort eða hjá mér í rauninni því ég ætla ekki að hætta aftur og byrja svo aftur. Mér hefur liðið mjög vel í líkamanum á þessari leiktíð og misst lítið úr. Ég get vel hugsað mér að spila áfram og taka allavega eitt ár í viðbót eins og mér líður í dag,“ sagði Helgi Valur í samtali við mbl.is.

mbl.is