Einhvern tímann er allt fyrst

Erik Hamrén sat fyrir svörum á blaðamannfundi íslenska landsliðsins í ...
Erik Hamrén sat fyrir svörum á blaðamannfundi íslenska landsliðsins í Laugardalnum í dag. mbl.is/Eggert

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, minnti blaðamenn á það að það geti allt gerst í fótbolta þegar hann sat fyrir svörum ásamt Gylfa Þór Sigurðssyni á blaðamannafundi íslenska liðsins á Laugardalsvelli í dag. Ísland mætir Frakklandi í undankeppni EM 2020 á Laugardalsvelli á morgun en Ísland er í þriðja sæti H-riðils með 12 stig eftir fyrstu sex leiki sína á meðan Frakkar eru í öðru sætinu með 15 stig.

Þetta verður mjög athyglisverður og erfiður leikur. Þeir eru með frábært lið, heimsmeistarar, og þú þarft að geta eitthvað í fótbolta, innan sem utan vallar, til þess að verða heimsmeistari. Þetta verður þess vegna erfitt en við höfum engu að tapa því það búast allir við sigri Frakka. Ef við horfum raunsætt á hlutina þá eiga Frakkar að vinna en óvæntir hlutir geta gerst í fótbolta og af hverju ekki á morgun. Ísland hefur aldrei unnið Frakkland og einhverntíman er allt fyrst, kannski á morgun, við sjáum til.

Hamrén staðfesti á fundinum í dag að allir leikmenn íslenska liðsins væru klárir en eins og áður hefur komið fram þá verður Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði ekki með vegna meiðsla.

Það eru meiðsli í báðum liðum en það er hluti af leiknum og lítið hægt að gera í því. Auðvitað vill maður alltaf geta stillt upp sínu besta liði en við erum vanir þessu. Ég á ekki von á því að Frakkar breyti neinu, þrátt fyrir meiðsli, og það er eins hjá okkur. Við viljum spila ákveðinn fótbolta en auðvitað söknum við ákveðna lykilmanna. Að sama skapi æfðu allir leikmenn íslenska liðsins í gær og allir eru heilir. Það getur auðvitað allt gerst í fótbolta en það eru alir klárir í slaginn eins og staðan er núna.“

Erik Hamrén tók við liðinu í águst 2018 en Aron ...
Erik Hamrén tók við liðinu í águst 2018 en Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands, verður ekki með vegna meiðsla. mbl.is/Bjarni Helgason

Ísland komið á óvart

Gengi íslenska liðsins á undanfarna tólf mánuði hefur verið upp og ofan en þrátt fyrir það á liðið góða möguleika á því að tryggja sér sæti í lokakeppni EM 2020.

Við áttum erfitt síðasta ár og unnum ekki marga leiki. Við höfum spilað vel á þessu ári og náð í góð úrslit, að undanskildum töpunum í Frakklandi og Albaníu. Við höfum verið mjög sterkir á heimavelli sem er jákvætt. Ísland hefur komið mörgum á óvart undanfarin ár en ekki lengur því nú vita allir hvað liðið getur. Liðið hefur upplifað frábær augnablik á Laugardalsvelli en við viljum fara á okkar þriðja stórmót í röð. Við eigum góða möguleika, þótt margir hafi efast um að smáþjóð gæti farið á þrjú stórmót í röð. Við viljum afsanna þá spá og það hefur komið mér mikið á óvart hversu vel Ísland hefur gert þegar kemur að knattspyrnuþjálfun. Íslenskur fótbolti er á uppleið sem er ótrúlegt miðað við það að hér búa einungis 350.000 manns sirka,“ sagði Hamrén í Laugardalnum í dag.

mbl.is