Brandur vill komast í stærri deild

Brandur Olsen í leik með FH í sumar.
Brandur Olsen í leik með FH í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Færeyski landsliðsmaðurinn Brandur Olsen vill reyna fyrir sér í sterkari deild en hann hefur spilað með liði FH undanfarin tvö ár.

Brandur á tvö ár eftir af samningi sínum við Hafnarfjarðarliðið en í 39 deildarleikjum með liðinu hefur miðjumaðurinn skorað 13 mörk.

Brandur var í eldlínunni með Færeyingum þegar þeir töpuðu fyrir Svíum 3:0 í síðasta leik sínum í undankeppni EM í gærkvöld og eftir leikinn sagði hann í samtali við færeyska útvarpið að hann hafi metnað í að komast í sterkari deild og segist klár í að taka næsta skref á ferli sínum.

Brandur, sem verður 24 ára gamall í næsta mánuði, kom til FH frá danska liðinu Randers en þar á undan spilaði hann með dönsku liðunum Vendsyssel og FC København, sem hann varð bikarmeistari með árið 2015 þar sem hann tryggði FC København sigurinn í framlengingu.

mbl.is