Gæti allt eins hætt í fótbolta

Arnar Sveinn Geirsson varð Íslandsmeistari með Val árin 2017 og …
Arnar Sveinn Geirsson varð Íslandsmeistari með Val árin 2017 og 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Arnar Sveinn Geirsson er ekki í framtíðaráformum Óskars Hrafns Þorvaldssonar, nýráðins þjálfara Breiðabliks. Arnar leitar sér því að nýju liði en hann er samningsbundinn Breiðabliki til október 2020 og ítrekaði í samtali við mbl.is að hann væri ekki að stressa sig of mikið á hlutunum.

„Það er bara ekkert í gangi eins og staða er í dag,“ sagði Arnar Sveinn þegar hann var spurður að því hvort hann væri í viðræðum við einhver félög. „Ég hef heyrt af áhuga frá liðum í efstu deild en það hefur ekkert lið haft beint samband við mig eins og staðan er í dag. Mín tilfinning er sú að liðin séu aðeins að halda aftur af sér og að það verði ekki einhverjir leikmenn sóttir nema nauðsyn þyki.“

Arnar varð Íslandsmeistari með Val, árin 2017 og 2018, og ítrekar að hann vilji spila áfram í efstu deild.

„Ég hef spilað í 1. deildinni og það var góð reynsla en ég tel mig vera nægilega góðan til þess að spila í efstu deild og þar vil ég spila. Mér finnst ég vera búinn að sanna mig í þessari deild og ég á ekki von á því að spila í 1. deildinni næsta sumar.“

Arnar á að baki 103 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað átta mörk en hann viðurkennir að hann gæti allt eins hætt í fótbolta, ef rétta tilboðið kemur ekki upp.

„Eins og staðan er í dag veit ég ekkert hvernig næsta sumar verður. Það var vissulega leiðinlegt að fá þau skilaboð frá Óskari á fyrsta fundi að hann þyrfti ekki á mér að halda en svona er þetta. Maður gæti allt eins hætt í fótbolta ef málin þróast þannig en ég er með samning við Breiðablik og ég er ekki að stressa mig of mikið á þessu á þessum tímapunkti,“ sagði Arnar Sveinn í samtali við mbl.is.

Arnar Sveinn Geirsson í leik með Breiðabliki síðasta sumar.
Arnar Sveinn Geirsson í leik með Breiðabliki síðasta sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert