Hafa hitað vel upp fyrir leikinn gegn Íslandi í kvöld

Ívar Ingimarsson og Iain Hume í fyrsta landsleik Íslands og …
Ívar Ingimarsson og Iain Hume í fyrsta landsleik Íslands og Kanada árið 2007. Hann endaði með jafntefli, 1:1. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kanadíska landsliðið í knattspyrnu sem mætir því íslenska í vináttulandsleik í Irving í Kaliforníu í kvöld er að mestu skipað leikmönnum úr bandarískum og kanadískum félagsliðum.

Þrjú kanadísk félagslið spila í bandarísku MLS-deildinni, Vancouver Whitecaps, Toronto og Montreal Impact, og fjórtán af þeim 26 leikmönnum sem eru í landsliðshópnum í Kaliforníu koma frá þessum þremur liðum.

Lið Kanada hefur dvalið í Kaliforníu í ellefu daga og spilað þar tvo vináttulandsleiki gegn Barbados. Kanada vann báða leikina með sömu markatölu, 4:1, og níu leikmenn úr hópnum spiluðu sína fyrstu landsleiki þar.

Rétt eins og hjá íslenska liðinu vantar flesta þá landsliðsmenn Kanada sem leika með evrópskum félagsliðum en margir þeirra spila í Þýskalandi og á Bretlandseyjum.

Níu þeirra sem mæta Íslandi hafa spilað fleiri en 10 landsleiki og reyndastur er 32 ára gamall framherji, Tosaint Ricketts, leikmaður Vancouver Whitecaps, en hann hefur skorað 17 mörk í 60 landsleikjum. Hann er fjórði markahæsti leikmaðurinn í landsliðssögu Kanada.

Ísland hefur ekki tapað fyrir Kanada en liðin hafa þrisvar mæst í vináttulandsleikjum á þessari öld. Ísland hefur unnið einn leik og tveir hafa endað með jafntefli.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson skoraði mark Íslands í 1:1 jafntefli liðanna á Laugardalsvellinum 22. ágúst árið 2007.

Kristinn Steindórsson og Matthías Vilhjálmsson tryggðu Íslandi 2:1 sigur í Orlando í Flórída 16. janúar 2015.

Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði mark Íslands í 1:1 jafntefli liðanna í Orlando í Flórída 19. janúar 2015.

Viðureign Kanada og Íslands hefst á miðnætti að íslenskum tíma, klukkan 24.00, og verður fylgst með gangi mála hér á mbl.is.

mbl.is