Skagamaður æfir með norsku liði á Spáni

Stefán Teitur Þórðarson í leik með ÍA.
Stefán Teitur Þórðarson í leik með ÍA. mbl.is/Kristinn Magnússon

Knattspyrnumaðurinn Stefán Teitur Þórðarson er mættur til Marbella á Spáni þar sem hann er á reynslu hjá norska úrvalsdeildarliðinu Sarpsborg. Stefán æfir með norska liðinu í tíu daga, en hann hefur vakið athygli erlendra félaga í vetur. 

Stefán lék sína fyrstu A-landsleiki gegn Kanada og El Salvador í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Stefán er Skagamaður og hefur allan ferilinn leikið með uppeldisfélagi sínu ÍA, alls 71 leik, þar sem hann hefur skorað 15 mörk. 

Miðjumaðurinn skoraði eitt mark í 20 leikjum í efstu deild á síðustu leiktíð og tíu mörk í 22 leikjum í 1. deildinni árið á undan. Fyrr í vetur var Stefán á reynslu hjá Álasundi í Noregi. Stefán er 21 árs og hefur hann skorað eitt mark í 12 leikjum með 21 árs landsliðinu. 

Fótbolti.net greindi frá. 

mbl.is