Starfshópur skipaður vegna tillögu um fjölgun liða

Einhver bið verður á fjölgun liða í úrvalsdeild karla í …
Einhver bið verður á fjölgun liða í úrvalsdeild karla í knattspyrnu. mbl.is/Árni Sæberg

Nýr starfshópur verður skipaður til þess að fara yfir hugsanlega fjölgun liða í úrvalsdeild karla, í knattspyrnu. Á hinn nýi starfshópur að skila inn áliti sínu eigi síðar en 1. september 2020. Breytingartillaga þess efnis var samþykkt í dag á 74. ársþingi KSÍ sem fram fer í Ólafsvík. Var breytingartillagan lögð fram af stjórn KSÍ og Knattspyrnufélaginu ÍA.

Þar með er ljóst að liðum eða leikjum í deildinni verður í fyrsta lagi fjölgað frá og með tímabilinu 2022. 

Í þingskjali 10, sem lagt var fram á 74. ársþinginu af ÍA, var lagt til að efsta deild yrði skipuð 14 liðum í stað 12. Fól tillagan þá í sér að 3 lið úr 1.-4. deild myndu fara upp um deild í stað tveggja keppnistímabilið 2020 og aðeins eitt lið falla úr hverri af þremur efstu deildunum.

Í tillögu ÍA segir að fyrirkomulagið sé „fyrst og fremst hugsað til þess að fleiri ungir íslenskir leikmenn fái tækifæri til að spila í meistaraflokki og fái þannig meiri spiltíma. Myndi það efla íslenska knattspyrnu til framtíðar,“ segir í þingskjali 10.

Þar segir einnig að félög í landinu fái „aukið svigrúm til endurskipulagningar á sínum rekstri í ljósi þess að færri lið falla milli deilda en áður. Í ljósi erfiðs rekstrarumhverfis, og fyrirsjáanlegu framhaldi á því, er mikilvægt að félögin fái tækifæri til að skoða rekstur sinn og stefnur.“

Breytingartillaga stjórnar KSÍ og Knattspyrnufélagsins ÍA við þingskjal 10 í heild sinni:

„KFÍA gerir það að tillögu sinni ásamt stjórn KSÍ að á grundvelli skýrslu starfshóps um Pepsi Max deild karla og fjölgun leikja og framkominnar tillögu ÍA á þingskjali 10 verði nýr starfshópur skipaður til þess að fara ítarlega yfir málið og þá kosti sem reifaðir hafa verið. Ber starfshópnum að skila áliti sínu og tillögum eigi síðar en 1. september 2020. - Samþykkt“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert