KA búið að koma sér í var í ljósi aðstæðna

KA-menn fagna marki gegn Keflavík í Lengjubikarnum í vetur.
KA-menn fagna marki gegn Keflavík í Lengjubikarnum í vetur. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Íþróttahreyfingin stendur frammi fyrir erfiðum mánuðum vegna núverandi ástands en kórónuveiran herjar nú á allt þjóðfélagið. Íþróttafélög treysta alla jafnan á tímabundna innkomu af viðburðum sem ekki geta lengur farið fram.

Samkomubann er í gildi á Íslandi og allt reynt til að hefta útbreiðslu veirunnar sem fer nú um heiminn eins og eldur í sinu. Morgunblaðið heyrði í Sævari Péturssyni, framkvæmdastjóra KA, til að vita hvernig Akureyrarfélagið er að bregðast við, nú þegar í harðbakkann slær.

„Rekstrarumhverfið er náttúrlega að gerbreytast. Það er mikið verið að fresta tekjum sem við gerðum ráð fyrir í viðburðum og mótahaldi og slíku. Við vitum ekki nákvæmlega í dag hvað mun svo fara fram síðar meir en við erum til dæmis með tvö, þrjú krakkamót sem búið er að flauta af. Þetta hefur bein áhrif á þá peninga sem við vorum búin að áætla inn í félagið núna í mars og apríl,“ sagði Sævar en félagið mun verða af töluverðum tekjum á meðan ástandið í þjóðfélaginu er með þessum hætti.

„Þetta eru um 65% af tekjum félagsins þessa tvo mánuði sem er einfaldlega bara óvissa um. Við gerum okkur auðvitað vonir um að eitthvað af því komi síðar á árinu en við þurfum engu að síður að stilla okkur af og bregðast við þessu.“

Sævar segir KA sennilega lengra komið en flest félög í að bregðast við þessu breytta umhverfi. Búið er að ræða við alla þjálfara og leikmenn í meistaraflokki í knattspyrnu, sem allir hafa samþykkt að lækka tímabundið í launum. Þá segir hann félagið þakklát fólkinu sínu, sem sýnir þessum erfiðu tímum mikinn skilning.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert