Skertar launagreiðslur á Akranesi

Geir Þorsteinsson tók við framkvæmdastjórastöðunni á Akranesi á dögunum.
Geir Þorsteinsson tók við framkvæmdastjórastöðunni á Akranesi á dögunum. mbl.is/Hari

Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formaður KSÍ var á dögunum ráðinn framkvæmdastjóri ÍA á Akranesi, en mikið tap var á rekstri félagsins á síðasta ári. Geir tekur við framkvæmdastjórastarfinu á erfiðum tímum en kórónuveirufaraldurinn fer nú eins og eldur um sinu um heimsbyggðina og hefur faraldurinn sett allt íþróttalíf úr skorðum.

Allt íþróttastarf liggur niðri á landinu í dag og félögin, sem hafa í gegnum tíðina getað treyst á innkomur meðal annars í gegnum yngri flokka starf og yngri flokka mót, standa nú frammi fyrir miklum rekstarvanda. Geir birti pistil á heimasíðu Skessuhorns þar sem hann fer stöðuna hjá Skagamönnum.

Knattspyrnufélag ÍA hefur orðið að bregðast við nýju aðstæðum með áður óþekktum hætti til að vernda starfsemi félagsins. Stjórnin félagsins ákvað, sem fyrsta skref, að beita neyðarúrræðum strax um þessi mánaðamót og skerða launagreiðslur til þjálfara og leikmanna umtalsvert,“ segir Geir meðal annars í pistli sínum.

„Ráðstöfunin er sársaukafull en nýtur skilnings þessara aðila sem er gott dæmi um að okkar fólk er með stórt ÍA hjarta. Mikilvægt er að upplýsa bæjarbúa og stuðningsmenn um þessar ráðstafanir félagsins. Við berum þá von í brjósti að skilningur á sérstöðu íþrótta verði til þess að úrræði ríkisvaldsins um minnkað starfshlutfall nýtist þjálfurum og leikmönnum okkar.“

Pistil Geirs má sjá með því að smella hér.

mbl.is