Selfyssingar bíða í von og óvon

Sefoss vann sinn fyrsta leik í deildinni í síðustu umferð …
Sefoss vann sinn fyrsta leik í deildinni í síðustu umferð þegar félagið heimsótti FH í Kaplakrika. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Æfing kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu sem fara átti fram í kvöld hefur verið frestað vegna gruns um kórónuveirusmit innan leikmannahóps liðsins en þetta staðfesti Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari liðsins, í samtali við mbl.is í dag.

Leikmaður Breiðabliks greindist með kórónuveiruna í gær, en hún kom inn á sem varamaður í leik Selfoss og Breiðabliks í 2. umferð Pepsi Max-deildar kvenna þann 18. júní síðastliðinn.

Þá hefur leik Selfoss/Hamars/Ægis/KFR gegn HK einnig verið frestað í bikarkeppni 2. flokks kvenna. „Það átti að fara fram æfing hjá kvennaliðinu í kvöld en henni hefur nú verið frestað,“ sagði Alfreð Elías í samtali við mbl.is.

„Þá hefur leik sem fara átti fram í 2. flokki kvenna á Selfossi einnig verið frestað. Það kom upp grunur um smit innan hópsins eftir að leikmaður liðsins fann fyrir slappleika.

Við erum svo bara að bíða núna og sjá hvað kemur út úr því prófi. Við erum að vinna þetta saman með Almannavörnum og höfum einfaldlega gert það sem okkur hefur verið ráðlagt að gera. Við höfum unnið náið með rakningateyminu í dag og við höfum svo bara fylgt þeim fyrirmælum sem okkur hafa verið gefin.

Það er enginn leikmaður Selfoss í sóttkví en við erum meðvituð um það sem er í gangi og tökum því lífinu rólega eins og staðan er núna,“ bætti Alfreð við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert