KR sneri taflinu við á Skaganum

Kristján Flóki Finnbogason fagnar sigurmarki sínu á Akranesi í kvöld.
Kristján Flóki Finnbogason fagnar sigurmarki sínu á Akranesi í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Íslandsmeistarar KR unnu 2:1-sigur á ÍA á Norðurálsvellinum á Akranesi í þriðju umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í kvöld.

Bæði lið hófu Íslandsmótið á sigri, Skagamenn lögðu KA að velli, 3:1, á heimavelli og KR-ingar unnu firnasterkan 1:0-útisigur gegn Völsurum. Bæði lið töpuðu svo í annarri umferð, ÍA gegn FH á útivelli, 2:1, og Íslandsmeistararnir fengu óvæntan skell á heimavelli, 3:0 gegn HK. Eftir vonbrigðin í síðustu umferð þurftu bæði lið að sanna sig í kvöld og upphaf leiksins var eftir því.

Þó fyrri hálfleikurinn hafi verið markalaus var hann alls ekki leiðinlegur, þvert á móti. KR-ingar byrjuðu af krafti og áttu að ná forystunni eftir rúmlega tíu mínútna leik þegar Árni Snær Ólafsson í marki ÍA varði gott skot Óskars Arnar Haukssonar út í teig, beint fyrir fætur Pablo Punyed sem tókst þó ekki að gera sér mat úr færinu. Stefán Teitur Þórðarson fór svo illa að ráði sínu fyrir heimamenn þegar hann skóflaði boltanum yfir autt markið eftir hálftíma leik en það reyndist þema leiksins framan af að bæði lið fóru illa með góð færi.

Ísinn var hins vegar brotinn snemma í síðari hálfleik þegar Steinar Þorsteinsson kom Skagamönnum yfir á 48. mínútu með marki af stuttu færi eftir að Tryggvi tíaði hann upp eftir fyrirgjöf Viktors Jónssonar. Heimamenn voru þó ekki lengi í paradís. Aron Bjarki Jósepsson jafnaði metin á 53. mínútu með skoti af stuttu færi eftir mikið klafs í vítateignum í kjölfar hornspyrnu.

Stefán Teitur Þórðarson trúir ekki eigin augum eftir að hafa …
Stefán Teitur Þórðarson trúir ekki eigin augum eftir að hafa klúðrað dauðafæri á Skaganum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson

Endurkoma KR-inga var svo fullkomnuð á 61. mínútu þegar Kristján Flóki Finnbogason kom þeim yfir með laglegu skoti yfir Árna Snæ í markinu eftir fyrirgjöf Óskars Arnar. KR-ingar fengu svo kjörið tækifæri til að gera út um leikinn þegar Hallur Flosason braut á Óskari inn í teignum, vítaspyrna dæmd. Pálmi Rafn Pálmasson steig á punktinn en skaut í stöngina á 84. mínútu. Skagamenn pressuðu stíft á lokamínútunum en tókst þó ekki að kreista fram jöfnunarmark.

KR-ingar aftur á sigurbraut

Eftir slæmt tap í Vesturbænum gegn HK í síðustu umferð, sem var úr karakter fyrir KR-liðið, mátti sjá glitta í mulningsvélina sem varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð í kvöld, sérstaklega í síðari hálfleik. Eftir að Skagamenn tóku forystuna voru KR-ingar snöggir að snúa taflinu við og eftir að þeir komust yfir voru heimamenn hreinlega aldrei líklegir til að koma sér aftur inn í leikinn. Kennie Chopart og Kristinn Jónsson áttu frábæran leik í bakvarðarstöðum KR. Þeir hlupu manna mest, skiluðu mikilli vinnu í vörninni og studdu vel við sóknarmennina. Kristján Flóki fór illa með gott færi í fyrri hálfleik en bætti fyrir það með sigurmarkinu og var hann heimamönnum erfiður viðureignar, hélt varnarmönnum ÍA á tánum.

Skagamenn voru sjálfum sér verstir í kvöld. Klúðruðu hverju færinu á fætur öðru og mun Stefán Teitur sofa illa í nótt eftir dauðafærið sem hann nýtti ekki í fyrri hálfleik. Þá var það gríðarlegt áhyggjuefni fyrir þá þegar hann fór meiddur af velli um stundarfjórðungi fyrir leikslok. Þá set ég spurningamerki við hlutverk Viktors Jónssonar, framherjans stóra og stæðilega, sem spilar á hægri kantinum núna. Hann komst lítið í boltann, og virðist ekki eiga heima á kantinum. Sérstaklega þar sem Skagamenn eru með einn fljótasta og flinkasta leikmann deildarinnar í Tryggva Hrafn, og kannski ekki óeðlilegt að hann sé upp á topp en ekki á kantinum. En kannski þarf Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari að finna nýtt hlutverk fyrir Viktor, sem skoraði nú bara 22 mörk í fyrstu deildinni fyrir tveimur árum síðan, í hlutverki framherja. Fáir eru jafn góðir skallamenn og Viktor en hann var hreinlega ekkert alltaf inn í teig þegar boltinn var sendur fyrir á Skaganum í kvöld. Það er sóun.

Þá var Einar Ingi Jóhannsson dómari ekki að eiga sitt besta kvöld, lítið samræmi var í ákvörðunum hans á Norðurálsvellinum og fengu KR-ingar afar ódýra vítaspyrnu undir lok leiks. Sú ákvörðun kom reyndar ekki að sök er Pálmi nýtti ekki vítaspyrnuna en það var mikið um misvel framkvæmdar tæklingar á vellinum í kvöld sem Einar tók oft illa á. Það er erfitt fyrir leikmenn að spila fótboltaleik þegar línan í dómgæslunni er á stanslausu reiki.

KR-ingar fara upp í 5. sætið og eru með sex stig eftir þrjár umferðir. ÍA er áfram með þrjú stig og hefur nú tapað tveimur leikjum í röð en liðið situr í 6. sæti. Skagamenn heimsækja Valsara á Hlíðarenda á föstudaginn en KR-ingar fá bikarmeistara Víkings í heimsókn í Frostaskjólið.

Kristinn Jónsson átti afbragðsleik á Skaganum í kvöld.
Kristinn Jónsson átti afbragðsleik á Skaganum í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
ÍA 1:2 KR opna loka
90. mín. Aron Bjarki Jósepsson (KR) á skot framhjá Úr aukaspyrnu, yfir veginn en yfir markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert