Geggjað að ná í fyrsta markið í meistaraflokki

Snædís María Jörundsdóttir.
Snædís María Jörundsdóttir. Ljósmynd/Stjarnan

„Við byrjuðum þetta vel en svo fengu þær sjálfstraust og settu nokkur mörk og það var leiðinlegt,“ sagði hin 16 ára gamla Snædís María Jörundsdóttir í samtali við mbl.is eftir 1:4-tap Stjörnunnar gegn Selfossi í Pepsi Max-deildinni í fótbolta í kvöld. 

Stjarnan byrjaði leikinn nokkuð vel en eftir að Selfoss skoraði fyrsta markið úr víti eftir rúmt korter, var ekki spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi. „Okkur fannst þetta ekki vera hendi á bekknum en svona er þetta. Það var meiri kraftur í okkur í lokin og við gerðum vel í að setja þetta mark og klára þetta allavega vel.“

Snædís skoraði mark Stjörnunnar undir lokin og var markið það fyrsta í meistaraflokki. „Það var geggjað að ná í fyrsta markið í meistaraflokki. Ég spretti á nær og vonaðist eftir sendingunni sem síðan kom og ég skilaði boltanum upp í skeytin.“

Stjarnan hefur unnið tvo leiki og tapað tveimur í upphafi móts og er Snædís þokkalega sátt við byrjunina. „Þetta er ágæt byrjun hjá okkur, það var leiðinlegt að tapa þessum leikjum en við höldum bara áfram,“ sagði Snædís

Frá leiknum í kvöld.
Frá leiknum í kvöld. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is