Mikilvægt að nýta sér meðbyrinn

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Hari

„Þetta hefur verið mikil, góð og jafnframt skemmtileg vinna í kringum þennan nýja landsliðsbúning og auðvitað merkin í kringum bæði KSÍ og landsliðið,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardalnum í dag.

KSÍ kynnti nýtt landsliðsmerki í dag en merkið er unnið í samstarfi við auglýsingaskriftstofuna Brandenburg.

„Bæði markaðsdeildin og KSÍ koma að allri vinnunni í kringum merkið, ásamt samstarfsaðilum okkar hjá auglýsingastofunni Brandenburg, þannig að við erum mjög ánægð með þessa útkomu og vonandi tekur þjóðin þessu vel líka.

Það gæti tekið tíma fyrir einhverja að venjast þessum breytingum en það er mikil saga á bakvið merkið og ég vil bara hvetja fólk til þess að kynna sér hana. Þá erum við gríðarlega ánægð með útkomuna á nýju landsliðstreyjunni og það má alveg segja að það séu spennandi tímar framundan hjá KSÍ.“

Aron Einar Gunnarsson og íslenska karlalandsliðið vonast til þess að …
Aron Einar Gunnarsson og íslenska karlalandsliðið vonast til þess að tryggja sér sæti í lokakeppni EM 2020 sem fram fer á næsta ári í borgum víðsvegar um Evrópu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Augun beinast að Íslandi

KSÍ hóf vinnu að nýu landsliðsmerki árið 2019 í samstarfi við Brandenburg auglýsingaskrifstofuna en sambandið kynnti nýtt merki knattspyrnusambandsins í febrúar á þessu ári.

„Við gerðum ákveðnar skipulagsbreytingar innan sambandsins og settum á laggirnar markaðssvið KSÍ sem dæmi. Okkur fannst við verða og þurfa að gera meira með þessum góða árangri sem landsliðin okkar hafa náð á undanförnum árum og reyna að nýta okkur það með þessum mikla meðbyr sem einkennt hafa liðin.

Nýtt landsliðsmerki er hluti af því og svo auðvitað nýir búningar líka og mér finnst við vera nýta okkur þau tækifæri sem í boði eru. Eins erum við að reyna styrkja okkar ásýnd út á við og erlendis og ég tel að nýja landsliðsmerkið sé hluti af þeirri vegferð okkar enda Ísland vakið heimsathygli fyrir framgöngu sína á knattspyrnuvellinum á undanförnum árum.“

Íslenska kvennalandsliðið leikur í nýjum landsliðsbúningum þegar keppni hefst á …
Íslenska kvennalandsliðið leikur í nýjum landsliðsbúningum þegar keppni hefst á nýjan leik í undankeppni EM 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnuáhugamönnum til góðs

KSÍ stefnir á að framleiða söluhæfan varning í tengslum við landsliðsmerkið, svo sem sængurver, brúsa, boli, bolla og aðrar nytsamlegar vörur.

„Við erum mjög lítið knattspyrnusamband á evrópskan mælikvarða og með lítinn markað innan Íslands. Það er því ekkert óeðlilegt að það taki smá tíma að nýta sér velgengni liðanna. Við teljum að það séu aukin tækifæri fyrir KSÍ á erlendum vettvangi og höfum verið að leita þeirra að undanförnu.

Eins erum við að hugsa um íslenska stuðningsmenn með þessari þróun og öllum þeim varningi sem hægt verður að bjóða upp á tengda vörumerkinu. Þetta er sambandinu og knattspyrnuáhugamönnum til góðs,“ sagði Guðni Bergsson í samtali við mbl.is.

mbl.is