„Sölvi er sterkur maður“

Pablo Punyed, Ágúst Eðvald Hlynsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson í …
Pablo Punyed, Ágúst Eðvald Hlynsson og Arnór Sveinn Aðalsteinsson í leik KR og Víkings. mbl.is/Sigurður Unnar

Pablo Punyed skoraði síðara mark KR í 2:0 sigrinum á Víkingi í 4. umferð Pepsí Max deildar karla í knattspyrnu í dag. Hann kom einnig við sögu þegar Sölvi Geir Ottesen, fyrirliði Víkings, var rekinn út af í stöðunni 1:0. Var það eitt þriggja skipta sem rauða spjaldið fór á loft. 

Mbl.is spurði Punyed út í atvikið þegar Sölvi fékk rauða spjaldið. Sölvi hafði þá hent varamanninum Stefáni Árna Geirssyni í grasið. Fylgdi því eftir með því að slá Stefán að því er virtist en Sölvi og samherjar hans vildu þó meina að þá hafði Punyed ýtt Sölva á Stefán. Punyed segir það ekki vera úr lausu lofti gripið en er í vafa um hversu miklu máli það hafi skipt. 

„Sölvi var að bakka á mig og ég ýtti þá aðeins við honum. Það var ekki mikið að mér fannst og Sölvi er sterkur maður. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann er í stimpingum í leikjum í sumar. Hvort það eru tilviljun veit ég ekki. Hann veit svarið við því,“ sagði Pablo Punyed og hrósaði Víkingum fyrir þeirra frammistöðu í leiknum. 

„Þetta var skrítinn leikur. Dómarinn tók stórar ákvarðanir en það getur verið partur af íþróttinni. Við þurftum bara að halda áfram til að vinna leikinn. Víkingarnir spiluðu mjög vel í dag og voru kannski óheppnir að fá á sig svo stóra dóma. Fyrir okkur eru þetta mikilvæg stig því við erum að reyna að vera í toppbaráttunni. Þá þurfum við að reyna að vinna þessa leiki sem eru 50/50,“ sagði Punyed en annað mark KR lét bíða eftir sér þótt Víkingar væru orðnir níu á vellinum og loks átta. 

„Já já en Víkingar spila mjög góðan fótbolta og þeir voru mjög vel skipulagðir. Við áttum ekki okkar besta dag og þurfum að finna taktinn.“

mbl.is