Þrír Víkingar reknir út af í sigri KR

Óskar Örn Hauksson, Nikolaj Hansen, Halldór Smári Sigurðsson og Arnþór …
Óskar Örn Hauksson, Nikolaj Hansen, Halldór Smári Sigurðsson og Arnþór Ingi Kristinsson í leiknum á Meistaravöllum. mbl.is/Sigurður Unnar

Mikið gekk á þegar Íslandsmeistarar og bikarmeistarar síðasta árs í knattspyrnu karla, KR og Víkingur, mættust í vesturbænum í 4. umferð Pepsí Max deildar karla í knattspyrnu í dag. KR sigraði 2:0 í leik þar sem rauða spjaldið fór þrívegis á loft. 

Íslandsmeistarar KR eru með 9 stig eftir 4 leiki í deildinni og bikarmeistarar Víkings með 5 stig eftir 4 leiki. 

Þrír Víkingar voru reknir af velli í leiknum. Allir þrír miðverðirnir: Kári Árnason, Sölvi Geir Ottesen fyrirliði og Halldór Smári Sigurðsson.

Markalaust var að loknum fyrri hálfleik. Kristján Flóki Finnbogason skoraði fyrra mark KR þegar Víkingar voru með tíu menn inn á og Pablo Punyed bætti við marki undir lokin þegar Víkingar voru aðeins átta eftir á vellinum.

Mark Kristjáns kom á 60. mínútu en hann afgreiddi þá fyrirgjöf Atla Sigurjónssonar í netið. Pablo skoraði af stuttu færi eftir sendingu varamannsins Ægis Jarls Jónassonar. 

Róðurinn gæti orðið þungur hjá Víkingum í næsta leik vegna þessara brottvísana og forvitnilegt verður að sjá hverjir verða þá miðverðir þegar liðið mætir Val. 

Kári fékk rauða spjaldið strax á 26. mínútu. Kristján Flóki komst þá framhjá honum með snyrtilegri hreyfingu og féll við. Kári setti höndina út og virtist toga Kristján niður sem lét sig þó væntanlega detta því snertingin virtist ekki mikil. 

Sölvi Geir henti Stefáni Árna Geirssyni í jörðina á 78. mínútu og virtist slá hann í framhaldinu. Sölvi mótmælti kröftuglega og vildi líklega meina að Pablo Punyed hafi hrint sér á Stefán í síðara atvikinu en Punyed var þar nærri. 

Ekki þarf að deila um brottvísun Halldórs Smára sem tæklaði Kennie Chopart illa sem fór meiddur af leikvelli á 82. mínútu. 

Fyrsta tap Víkings

Leikurinn var nokkuð fjörugur á fyrstu tuttugu mínútunum og liðin sóttu á víxl en Víkingar voru öflugri. Brottvísun Kára breytti auðvitað leiknum enda þurftu þá Víkingar að nálgast verkefnið á annan hátt. Þeim gekk hins vegar ágætlega í stöðunni tíu á móti ellefu, merkilegt nokk, gegn meisturunum á útivelli. Þegar uppi var staðið eftir fyrri hálfleikinn höfðu KR-ingar ekki skapað sér mörg marktækifæri og sóknir þeirra voru bitlitlar. 

Þegar KR braut ísinn eftir um klukkutíma leik og með ellefu menn á móti tíu þá gátu meistararnir leyft sér að vera bjartsýnir. Víkingar héldu áfram að standa sig ágætlega manni færri og áttu nokkrar sóknir sem hefðu getað skilað marki. 

Kristján Flóki Finnbogason hafði mikil áhrif í þessum leik. Hann náði Kára Árnasyni út af. Hvort sem það hafi verið réttur dómur eða ekki þá snéri Kristján hann alla vega skemmtilega af sér og var að sleppa inn fyrir. Kristján skoraði svo fyrra markið sem var afar mikilvægt því KR-ingar höfðu ekki verið skæðir í sókninni. Kristján fékk fleiri færi í leiknum en nýtti þau ekki nógu vel. 

Eftir að Sölvi fyrirliði var einnig farinn af velli var orðið ljóst að KR tæki öll stigin sem liðið gerði. Mikilvæg stig fyrir KR-inga sem fengu á kjaftinn á heimavelli í síðustu umferð gegn HK. Var þetta fyrsta tap Víkings í deildinni og þá hafa öll lið tapað leik nema Breiðablik sem hefur leikið þrjá leiki og Stjarnan sem aðeins hefur leikið tvo leiki. Stjarnan situr hjá um þessar mundir vegna kórónuveirunnar. 

KR 2:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Kristinn Jónsson (KR) á skot framhjá
mbl.is