„Mér fannst þetta vera vítaspyrna“

Nýliðaslagurinn í Kaplakrika í kvöld.
Nýliðaslagurinn í Kaplakrika í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var erfitt tap, en góður leikur og góð barátta. Við vildum auðvitað fá sigur, en þetta var baráttuleikur, mér fannst liðið mitt berjast vel og ég hefði viljað ná öðru marki,“ segir Taylor Victoria Sekyra, leikmaður FH, eftir tap FH gegn Þrótti 1:2 í Kaplakrika í kvöld.

Stephanie Mariana Ribeiro skoraði fyrir Þrótt þegar 37 sekúndur voru liðnar af leiknum og segir Taylor það að sjálfsögðu erfitt að fá á sig mark á fyrstu mínútu.

Gott að ná inn fyrsta markinu á tímabilinu

„En á sama tíma finnst mér við hafa brugðist vel við og létum þetta ekki hafa of mikil áhrif á okkur. Ég er stolt af því hvernig liðið brást við og barðist og jafnaði metin. Þetta var fyrsta mark okkar á tímabilinu og það var gott að ná því,“ segir Taylor.

„Þjálfarinn okkar fékk rautt spjald af því hann var að bregðast við atviki sem hefði átt að verða vítaspyrna,“ segir Taylor um atvikið þegar Guðni Eiríksson, þjálfari FH, fékk rautt spjald þegar allt ætlaði um koll að keyra þegar Friðrika Arnardóttir, markvörður FH, felldi Birtu Georgsdóttur, sóknarmann FH, þegar hún var komin ein í gegn. Dómarinn dæmdi ekki víti en umdeilt er hvort Friðrika hafi einungis farið í bolta eða mann og bolta.

„Hann stóð við bakið á okkur af því það var það sem átti að gerast. Ég kann að meta að tali okkar máli. Mér fannst þetta vera vítaspyrna, dómarinn dæmdi mikið þeim í vil og hefði átt að dæma okkur í vil líka. Hefði svo verið hefði hann átt dæma á þetta líka, hún var tekin niður í markteyg og þetta hefði verið mark hefði hún ekki verið tekin út. Fyrir mér er það vítaspyrna og ég skil af hverju þjálfaranum fannst það,“ segir Taylor.

Hefði viljað ná inn marki í lokin

Síðari hálfleikur var nokkuð tíðindalaus fyrir utan gul spjöld á báða bóga, en FH lá í sókninni síðustu mínúturnar. „Það hefði verið gott að ná inn marki í lokin. Við fundum það á okkur og þetta var að koma hjá okkur.“

FH á næsta leik í bikarnum, einmitt aftur á móti Þrótti. „Við eigum næsta leik við þær, sem er svolítið skrýtið og klikkað, en líka frábært. Þetta var flott barátta og við ætlum að eiga flotta baráttu aftur í næsta leik. Við vitum hvað við þurfum að gera, við vitum hvað þær gera vel og öfugt. Við munum vita nákvæmlega hvernig hitt liðið spilar. Ég held að það sem við getum tekið með okkur í næsta leik verði barátta eins og í þessum.“

mbl.is