Öruggt hjá Haukum gegn Austfirðingum

Haukar eru komnir í átta liða úrslit.
Haukar eru komnir í átta liða úrslit. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar eru komnir í átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta eftir sannfærandi 7:1-sigur á Fjarðabyggð/Hetti/Leikni á heimavelli í 16-liða úrslitunum í kvöld. Haukar leika í Lengjudeildinni, 1. deild, en Austfirðingarnir í 2. deild. 

Birna Kristín Eiríksdóttir og Sæunn Björnsdóttir komu Haukum í 2:0 í fyrri hálfleik og Birna bætti við sínu öðru marki á 47. mínútu. 

Gestirnir að austan minnkuðu muninn á 60. mínútu er Freyja Karín Þorvarðardóttir skoraði, en strax í næstu sókn kom Heiða Rakel Guðmundsdóttir Haukum aftur þremur mörkum yfir, 4:1. 

Elín Björg Símonardóttir bætti við fimmta marki Hauka á 75. mínútu, áður en Sæunn Björnsdóttir bætti við öðru marki sínu og sjötta marki Hauka. Haukar voru ekki hættir því Elín Klara Þorsteinsdóttir skoraði sjöunda markið á 88. mínútu og þar við sat. 

Eru Haukar fyrsta liðið utan úrvalsdeildarinnar sem tryggir sér sæti í átta liða úrslitunum. 

mbl.is