Varð fyrir kynþáttafordómum í Borgarnesi

Knattspyrnumaður úr 4. deildarliði Berserkja úr Reykjavík varð fyrir kynþáttafordómum í kvöld þegar liðið sótti Skallagrím heim til Borgarness.

Einar Guðnason hjá Berserkjum og aðstoðarþjálfari úrvalsdeildarliðs Víkings skýrði frá þessu á Twitter í kvöld. Í viðtali við aðstoðarþjálfara Berserkja, Viktor Huga Henttinen, á fotbolti.net í kvöld kemur fram að leikmaður í liði Skallagríms hafi ítrekað kallað leikmann í liði Berserkja „apakött" og síðan sagt við hann „drullastu heim til Namibíu.“

Viðbúið er að eftirmálar verði að þessum atvikum. Skallagrímur vann leikinn 2:0 en viðkomandi leikmanni liðsins var skipt af velli eftir 55 mínútur. Fram kemur í umræddu viðtali að dómari leiksins hafi ekki verið íslenskumælandi og því ekki áttað sig til fulls á því sem fram fór.

mbl.is