Uppgjör FH og Vals í Krikanum í dag

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, snýr aftur í Kaplakrika í fyrsta …
Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, snýr aftur í Kaplakrika í fyrsta sinn sem þjálfari annars liðs eftir að hafa stýrt FH í áratug. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heil umferð er á dagskrá í Pepsí Max deild karla í knattspyrnu í dag og í kvöld. 

Tvö efstu liðin FH og Valur eigast við í Kaplakrika og er leikið snemma en leikurinn hefst klukkan 16:15. 

Valsmenn mæta til leiks með átta stiga forystu á FH-inga, sem eiga hinsvegar einn leik til góða. Valur er með 37 stig og FH 29 stig, en þar á eftir koma Stjarnan með 24, KR og Breiðablik með 23 og Fylkir með 22 stig.

Valsmenn myndu því ná algjöru yfirburðaforskoti með sigri í dag en þá yrðu þeir ellefu stigum á undan FH-ingum. Takist FH hinsvegar að knýja fram sigur verður munurinn aðeins fimm stig og FH jafnframt með leik til góða. Liðin eiga eftir að mætast aftur og þá í lokaumferð deildarinnar.

Leikir dagsins: 

KA - HK klukkan 16

KR - Grótta klukkan 16:15

FH - Valur klukkan 16:15

Fjölnir - ÍA klukkan 16:15

Breiðablik - Stjarnan 19:15

Fylkir - Víkingur R. 19:15

Þetta er tíunda umferð deildarinnar en henni var frestað í byrjun ágúst þegar gert var hlé á Íslandsmótinu vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Í Lengjudeild kvenna er mikilvægur leikur á dagskrá en þá mætast Keflavík og Haukar í Reykjanesbæ klukkan 16:30. Ljóst er að annað hvort þessara liða mun fylgja Skagfirðingum upp í efstu deild að ári. Keflavík er fjórum stigum á undan Haukum fyrir leikinn í dag en liðin eiga báða innbyrðis leiki sína eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka