Aldrei séð annað eins

Brynjar Björn Gunnarsson
Brynjar Björn Gunnarsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK var að vonum svekktur eftir 2:3-tap fyrir Stjörnunni á heimavelli í Pepsi Max-deild karla í fótbolta í kvöld. Stjarnan komst í 2:0 í fyrri hálfleik en HK-ingar jöfnuðu í þeim síðar. Stjarnan átti hinsvegar lokaorðið því Hilmar Árni Halldórsson skoraði sigurmarkið fjórum mínútum fyrir leikslok.

„Þetta er svekkjandi. Það var bara eitt lið á vellinum og við gerðum hrikalega vel í að jafna. Samt var það ekki nóg og við byrjuðum að hörfa aftur eftir að við jöfnum. Það verður til þess að þeir komast nær markinu okkar og Hilmar var einn fyrir utan teig og það lofar ekki góðu. Hann kláraði þetta vel,“ sagði Brynjar við mbl.is. 

Hann var töluvert kátari með seinni hálfleikinn en þann fyrri enda allt annað að sjá hans menn. „Það var himinn og haf á milli hálfleika. Ég hef eiginlega aldrei séð annað eins. Ég var ósáttur í hálfleik og við fórum aðeins yfir þetta. Við komum miklu sprækari og betri í seinni hálfleikinn. Við skoruðum tvö úr horni og lágum á þeim. Ég er ánægður með það en ég hefði viljað sjá okkur klára þetta og fá að minnsta kosti eitt stig.

Við ræddum um að vakna til lífsins og mæta til leiks. Við vorum ekki á staðnum í fyrri hálfleik. Við vorum sterkari í seinni hálfleik, börðum um seinni boltana og vorum sterkari í návígum og spiluðum boltanum töluvert betur og hreyfðum Stjörnuliðið,“ sagði Brynjar Björn. 

mbl.is