„Manni finnst þetta vera sama sagan aftur og aftur“

Ingvar Jónsson.
Ingvar Jónsson. mbl.is/Bjarni Helgason

Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, segir leikmenn Víkings skorta sjálfstraust fyrir framan mark andstæðinganna vegna þess að mörkin hafa látið á sér standa í sumar. Það hafi sýnt sig gegn KR í kvöld. 

Liðin mættust í Pepsí Max deildinni í knattspyrnu í Fossvoginum í kvöld og KR hafði betur 2:0. 

„Ef við hefðum nýtt eitthvað af þessum færum þá hefði þetta getað farið öðruvísi. Við fengum fín færi. Gaui [Guðjón Orri] varði vel, til dæmis í vítinu. Við hefðum kannski getað fengið fleiri opnari færi. Við þurfum nokkuð mörg færi þessa dagana til að skora mörk. Menn eru ekki með mikið sjálfstraust fyrir framan markið og það hefur sýnt sig í síðustu leikjum. En við þurfum að hafa trú á þessu. Það eru risatalentar í þessu liði og við spilum flottan fótbolta á löngum köflum. Við þurfum hins vegar að nýta færin. Einnig væri ágætt að fá leik þar sem við komumst yfir og sjá þá hvernig andstæðingarnir bregðast við því,“ sagði Ingvar þegar mbl.is spjallaði við hann í Víkinni í kvöld. 

Víkingar fengu hálfgert kjaftshögg þegar KR skoraði eftir aðeins 35 sekúndur.

„Þeir refsuðu okkur í upphafi leiks með góðri skyndisókn þegar við vorum ekki tilbúnir. Eftir það var þetta sama sagan og oft áður. Við náum ekki að skora. Við pressuðum stóran hluta leiksins en svo skoruðu þeir annað markið og með því drápu þeir leikinn. Manni finnst þetta vera sama sagan aftur og aftur í sumar. Það ætlar sér enginn að byrja svona illa og fá á sig mark eftir 30 sekúndur. Við ætluðum að byrja af krafti. En þetta var flott sókn hjá þeim og þeir gerðu vel.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert