Birkir Már: Ég hef engin svör

Birkir Már Sævarsson skorar hér markið sitt í kvöld.
Birkir Már Sævarsson skorar hér markið sitt í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var fínn leikur hjá okkur, sérstaklega seinni hálfleikurinn þar sem við leysum það sem illa fór fyrir hlé,“ sagði Birkir Már Sævarsson, sem skoraði mark Íslands í 2:1-tapi gegn Belgíu á Laugardalsvellinum í Þjóðadeild UEFA í knattspyrnu, í viðtali við Stöð 2 í kvöld. 

„Það er gaman að koma aftur og þetta hafa verið góðir 9-10 dagar með liðinu. Við unnum leikinn sem skiptir máli og nú bíðum við eftir leiknum gegn Ungverjum,“ sagði Birkir sem var að koma aftur inn í landsliðið í fyrsta sinn síðan í mars 2019.

Birkir hefur verið duglegar að skora upp á síðkastið, þrátt fyrir að vera hægri bakvörður. Hann skoraði sitt annað landsliðsmark á ferlinum í kvöld en hefur þar að auki skorað fjögur mörk fyrir Valsara á Íslandsmótinu í síðustu fjórum leikjum. „Ég hef engin svör, mér er bara farið að líða betur og betur fyrir framan markið. Maður dettur í einhvern gír og vonandi heldur þetta áfram, að vísu eru engir leikir á næstunni.“

Þrátt fyrir fína frammistöðu í kvöld virðist Birkir ekki ætla sér að hirða byrjunarliðssætið af Guðlaugi Victor Pálssyni sem hefur spilað í bakverðinum undanfarna leiki. „Gulli er með þá stöðu neglda niður, hann var frábær í síðustu tveimur leikjum og á að spila ef hann er heill. En ef þeir vilja fá mig í verkefnið til að styðja við bakið á strákunum og setja smá pressu á hann, þá er ég til.“

mbl.is