Þrír leikmenn yfirgefa ÍBV

Gary Martin klárar ekki tímabilið með ÍBV.
Gary Martin klárar ekki tímabilið með ÍBV. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrír lykilmenn hjá karlaliði ÍBV í fótbolta koma ekki til með að klára tímabilið með Vestmannaeyjaliðinu. Um er að ræða Englendingana Jack Lambert og Gary Martin og síðan Bjarna Ólaf Eiríksson. Fótbolti.net greinir frá. 

Tímabilið hefur ekki gengið sem skyldi hjá ÍBV, en flestir áttu von á því að liðið myndi fara beint upp í efstu deild á nýjan leik eftir fall síðasta sumar. Liðið er hins vegar í sjötta sæti Lengjudeildarinnar með 30 stig þegar aðeins tveir leikir eru eftir. 

Bjarni Ólafur gæti lagt skóna á hilluna en hann er orðinn 38 ára og var fyrirliði Eyjamanna í sumar. Hann hefur leikið alla 20 leiki liðsins á tímabilinu.

Gary Martin byrjaði gríðarlega vel með ÍBV í sumar, en svo fór að halla undan fæti. Skoraði hann ellefu mörk í nítján deildarleikjum, en hann varð markakóngur efstu deildar á síðustu leiktíð. Lambert lék aðeins þrjá leiki með ÍBV og skoraði eitt mark, en hann kom ekki fyrr en í byrjun september.

ÍBV er komið í undanúrslit Mjólkurbikarsins, en óvíst er með framhald bikarkeppninnar vegna sóttvarnarmála. Þar á liðið að leika við FH. 

mbl.is