Valskonur fengu heimaleik í Meistaradeildinni

Valskonur fá heimaleik í 1. umferð.
Valskonur fá heimaleik í 1. umferð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valskonur mæta finnsku meisturunum HJK Helsinki í fyrstu umferð Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu en dregið var til hennar í höfuðstöðvum UEFA í Sviss rétt í þessu.

Valur fékk heimaleik og á leikur liðanna að fara fram á Hlíðarenda 3. eða 4. nóvember.

Valskonur voru í efri styrkleikaflokki en fjórum Norðurlandaliðum sem leika í umferðinni var raðað saman í hóp til að einfalda ferðalögin. Vålerenga frá Noregi, sem Ingibjörg Sigurðardóttir leikur með, var með Val í efri flokknum í þessum hópi og mætir KÍ frá Klaksvík í Færeyjum.

Vegna útbreiðslu kórónuveirunnar var keppni seinkað um þrjá mánuði og var breytt á þá leið að í stað þess að leika í fjögurra liða undanriðlum um sæti í 32ja liða úrslitunum verða nú tvær útsláttarumferðir leiknar í nóvember þar sem fjörutíu lið leika um tíu sæti í 32ja liða úrslitum. Þar hefja keppni 22 sterkustu lið Evrópu, samkvæmt styrkleikalista, en þau taka ekki þátt í tveimur fyrstu umferðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert