Einhugur hjá stjórn KSÍ

Guðni Bergsson, formaður KSÍ.
Guðni Bergsson, formaður KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er auðvitað þungbær ákvörðun og erfitt að taka hana. Við teljum hana nauðsynlega og stjórnin var einhuga sem og mótanefndin. Ef horft er til heildarhagsmuna þá er þetta skynsamlegasta niðurstaðan,“ sagði Guðni Bergsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is. 

Íslandsmótinu í knattspyrnu árið 2020 er lokið en í dag var ákveðið að hætta keppni vegna kórónuveirufaraldursins. Bráðabirgðareglugerð sem samþykkt var af stjórn KSÍ, og gefin út í júlí, inniheldur ákvæði um að staðan í deildunum sé látin gilda vegna þess að tekist hafði að ljúka 2/3 af deildakeppnunum.  

„Við gerum okkur fyllilega ljóst að þetta er efiður biti að kyngja fyrir marga. Sérstaklega þau sem voru í þeirri stöðu að berjast um að fara upp um deild, þau sem voru að berjast fyrir áframhaldandi veru í deild og þau sem voru í baráttu um Evrópusæti. Þetta tekur á okkur öll sem erum í stjórn KSÍ enda erum við öll með bakgrunn í fótboltanum.“

Í gær voru vísbendingar um að hertar aðgerðir í sóttvörnum yrðu kynntar af yfirvöldum í dag og í höfuðstöðvum KSÍ bjóst fólk við því að erfiða ákvörðun þyrfti að taka í dag. 

„Okkur grunaði í hvað stefndi þótt við vonuðum í gær að einhver möguleiki væri að framhaldið gæti verið bjartara í nóvember. Við ræddum málið frá mörgum hliðum og höfum auk þess gert það lengi. Við höfum verið á vaktinni í langan tíma í þessum máli. Margir þættir spila  inn í svona ákvörðun. Til dæmis velferð leikmanna sem hafa verið í löngu stoppi frá æfingum og keppni. Hversu langan undirbúning þurfa leikmenn eftir svona stopp? Svo er það árstíminn og það sem honum fylgir. Í heild sinni ljúkum við um 90% af Íslandsmótinu en það hlutfall er lægra í efstu deild karla. Mikil vinna var unnin af fólki í hreyfingunni að komast þetta langt með mótið og það náðist að ljúka keppni í yngri flokkum. En það er samt sem áður sárt að ná ekki að ljúka mótinu í heild sinni.“

Í tilkynningu Heilbrigðsráðuneytisins er svigrúm fyrir undanþágur þegar kemur að alþjóðlegum keppnum. Má því ekki búast við því að Valskonur geti spilað í Meistaradeildinni næsta miðvikudag á Hlíðarenda eins og til stendur að gera? 

„Nú er næsta atrenna að fara í það mál. Við höfum skilað inn fjölmörgum undnaþágubeiðnum og ýmsum greinagerðum varðandi fótboltaumhverfið á síðustu mánuðum. Höfum þar haldið uppi þeim málflutningi að öryggis sé gætt í fótboltanum og það umhverfi sé öruggt. En það er litið svo á hjá sóttvarnaryfirvöldum að áhætta fylgi hópamyndun sem slíkri. Við höfum séð fjölda smita hérlendis undanfarið og það endurspeglast í ákvörðun stjórnvalda.“

Í bikarkeppninni eru fjögur lið eftir í hvorum flokki, karla- og kvennaflokki. Var tekist á um hvort fresta eigi henni og sæta færis síðar? 

„Það var allt saman rætt en ákvæði reglugerðarinnar er nokkuð skýrt hvað bikarkeppnina varðar. Ljúka ber henni innan þessara tímamarka. Við töldum rétt að virða hana reglugerðina gagnvart bikarnum. Það var niðurstaðan,“ sagði Guðni Bergsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert