Leikmenn vilja Lagerbäck

Lars Lagerbäck nýtur mikilla vinsælda á meðal leikmanna íslenska karlalandsliðsins.
Lars Lagerbäck nýtur mikilla vinsælda á meðal leikmanna íslenska karlalandsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikmenn sem hafa verið fastamenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu undanfarin ár hafa óskað eftir því að Lars Lagerbäck verði ráðinn þjálfari liðsins samkvæmt heimildum mbl.is.

Lagerbäck, sem er orðinn 72 ára gamall, stýrði íslenska liðinu frá 2011 til ársins 2016 en hann lét af störfum eftir EM í Frakklandi þar sem liðið fór alla leið í átta liða úrslit keppninnar en tapaði fyrir Frakklandi í París.

Þá vilja leikmenn einnig að Freyr Alexandersson verði áfram í kringum liðið en hann var aðstoðarþjálfari Erik Hamrén frá 2018 til 2020.

Freyr sá einnig um leikgreiningar fyrir Heimi Hallgrímsson á árunum 2016 til 2018 þegar hann stýrði liðinu og Freyr þekkir því umgjörðina í kringum A-landslið karla afar vel.

Dregið var í undankeppni HM 2022 í gær en Ísland leikur í J-riðli ásamt Þýskalandi, Rúmeníu, Norður-Makedónía, Armeníu og Liechtenstein.

Ísland á því fína möguleika á því að komast í umspil hið minnsta fyrir HM í Katar og það gæti ýtt enn þá frekar undir að Svíinn Lagerbäck verði ráðinn þjálfari Íslands á nýjan leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert