Gamla ljósmyndin: Nýliði sem síðar sló leikjametið

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um.

Hafnfirðingurinn Sara Björk Gunnarsdóttir var á dögunum kjörin íþróttamaður ársins árið 2020 hjá Samtökum íþróttafréttamanna. Er það í annað sinn á þremur árum sem Söru hlotnast sá heiður. Er hún fyrsta konan sem fær sæmdarheitið oftar en einu sinni en samtökin hafa staðið fyrir kjörinu frá árinu 1956. 

Meðfylgjandi mynd af Söru var tekin á Ásvöllum í Hafnarfirði síðsumars árið 2007 en hún hafði þá verið valin í A-landsliðið í knattspyrnu í fyrsta sinn.

Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og Sara er orðin leikjahæsta kona landsliðsins frá upphafi en eins og fjallað var um þá sló hún leikjamet Katrínar Jónsdóttur í haust. Sara er auk þess á leiðinni á EM í fjórða sinn með landsliðinu. 

„ÉG er enn að jafna mig eftir að hafa fengið fréttirnar. Það er gríðarlegur heiður að vera valin í A-landsliðið,“ sagði Sara í samtali við Sigurð Elvar Þórólfsson eftir að tilkynnt var um valið árið 2007 en framundan var þá leikur gegn Slóveníu.

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu hinn 21. ágúst 2007 en Sara var einungis 16 ára gömul og vakti valið því talsverða athygli. 

Sara lék þá með uppeldisfélaginu Haukum í næstefstu deild. Hún kom að þjálfun 5. flokks um sumarið og eru leikmenn 5. flokks með henni á myndinni sem tekin var af Þorvaldi Erni Kristmundssyni þáverandi ljósmyndara hjá Morgunblaðinu/mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert