Væri fínt að spila oftar við Liechtenstein

Birkir Már Sævarsson skoraði fyrsta mark leiksins.
Birkir Már Sævarsson skoraði fyrsta mark leiksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birkir Már Sævarsson skoraði sitt þriðja mark fyrir íslenska landsliðið í fótbolta í 4:1-sigri á Liechtenstein á útivelli í undankeppni HM 2022 í kvöld. Íslenska liðið var miklu meira með boltann og var sigurinn sannfærandi. 

„Þetta var eins og við bjuggumst við. Þeir voru til baka og við með boltann. Við þurftum að vera þolinmóðir og finna lausnir. Það er alltaf erfitt að brjóta niður svona lið og finna glufur. Um leið og við settum tempóið upp þá opnaðist þetta aðeins,“ sagði Birkir við RÚV. 

Bakvörðurinn hefur skorað tvö af þremur mörkum sínum fyrir landsliðið gegn Liechtenstein. „Það væri fínt að spila oftar á móti Liechtenstein, þá næ ég kannski að skora eitthvað,“ sagði Birkir léttur í bragði. 

Hann segir Arnar Þór Viðarsson og Eið Smára Guðjohnsen vera að koma sínum áherslum inn í hópinn. „Það er búið að vera stuttur undirbúningur og mikið af leikjum. Þeir eru rétt að ná að koma sínum áherslum á og það er búið að ganga fínt. Þetta verður bara betra og betra.“

mbl.is