Arnar áfram á óuppsegjanlegum samningi

Arnar Gunnlaugsson fylgist með sínum mönnum í leik Víkings og …
Arnar Gunnlaugsson fylgist með sínum mönnum í leik Víkings og Keflavíkur í Lengjubikarnum í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Gunnlaugsson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild Víkings úr Reykjavík um tvö ár til viðbótar, eða til loka tímabilsins 2023.

Þetta var formlega staðfest á fréttamannafundi sem nú stendur yfir í Víkinni. Samningurinn er óuppsegjanlegur af beggja hálfu, eins og sá samningur sem áður var gerður eftir keppnistímabilið 2018.

Arnar er að hefja sitt þriðja tímabil sem aðalþjálfari Víkings en hann tók við af Loga Ólafssyni eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari hans tímabilið 2018. Víkingar urðu bikarmeistarar undir hans stjórn árið 2019.

Áður þjálfaði Arnar lið Skagamanna á árunum 2006 til 2009 en hann lék í ellefu ár sem atvinnumaður frá 1992 til 2003 þar sem hann spilaði með Feyenoord í Hollandi, Nürnberg í Þýskalandi, Sochaux í Frakklandi, ensku liðunum Bolton, Leicester og Stoke, og með Dundee United í Skotlandi. Hann lék m.a. 45 leiki í ensku úrvalsdeildinni og skoraði þrjú mörk.

Arnar varð deildabikarmeistari á Englandi, hefur unnið Íslandsmeistaratitilinn þrisvar sinnum sem leikmaður og bikarmeistaratitilinn tvisvar sinnum sem leikmaður og einu sinni sem þjálfari.  

Arnar lék með ÍA áður en hann gerðist atvinnumaður, kom tvisvar heim og spilaði nokkra leiki með liðinu, en lék síðan með KR, ÍA, FH, Val, Haukum og Fram á árunum 2003 til 2011 þegar hann lagði skóna á hilluna.

Samtals lék Arnar 188 deildaleiki á Íslandi og skoraði í þeim 105 mörk, en þar af eru 162 leikir og 82 mörk í efstu deild. Á ferlinum spilaði hann alls 339 deildaleiki heima og erlendis og skoraði í þeim 138 mörk. Þá lék Arnar 32 A-landsleiki og skoraði í þeim þrjú mörk, auk þess sem hann gerði 12 mörk í 26 leikjum með yngri landsliðum Íslands.

Í tilkynningu frá Víkingum segir meðal annars:

Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni hjá Víkingum.
Arnar Gunnlaugsson á hliðarlínunni hjá Víkingum. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Allt frá fyrstu æfingu hefur Arnar lagt áherslu á að Víkingur spili jákvæðan fótbolta og innleitt nýjar áherslur í leik liðsins. Undir stjórn Arnars hefur liðið tekið miklum framförum og vakið verðskuldaða athygli. Ungir leikmenn hafa fengið stór hlutverk í liðinu og Arnar hefur fylgt sinni sannfæringu og stefnu frá upphafi, hvort sem er í velgengni eða þegar á móti hefur blásið.  

Á sínu fyrsta tímabili undir stjórn Arnars varð Víkingur bikarmeistari, en þá höfðu liðið 29 ár frá síðasta titli í knattspyrnu hjá félaginu. Undanfarin ár hefur aðstaða til æfinga batnað til muna í Víkinni og telur stjórn deildarinnar félagið vera á góðum stað hvað varðar leikmenn, þjálfarateymi og alla umgjörð um sína afreksmenn.  

Knattspyrnudeild Víkings er afar ánægð með framlengingu samnings Arnars og hlakkar til áframhaldandi uppbyggingar.  

mbl.is