Ísland mætir Írlandi í vináttulandsleikjum

Leikmenn íslenska liðsins fagna marki gegn Ítalíu í vináttulandsleik í …
Leikmenn íslenska liðsins fagna marki gegn Ítalíu í vináttulandsleik í apríl á þessu ári. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu mætir Írlandi í tveimur vináttulandsleikjum, dagana 11. júní og 15. júní. Þetta tilkynnti KSÍ, Knattspyrnusamband Íslands, á heimasíðu sinni í dag.

Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli en leikirnir eru hluti af lokaundirbúningi íslenska liðsins fyrir undankeppni HM 2023 sem hefst í september.

Ísland leikur í C-riðli undankeppninnar ásamt Kýpur, Tékklandi, Hvíta-Rússlandi og Hollandi.

Ísland og Írland mættust síðast í vináttulandsleik hinn 8. júní 2017 en þeim leik lauk með markalausu jafntefli.

Alls hafa liðin mæst fimm sinnum í gegnum tíðina; tvívegis hefur Ísland fagnað sigri og þrívegis hafa liðin gert jafntefli.

mbl.is