Verðskuldaður sigur Víkinga á FH færði þeim efsta sætið

Leikmenn Víkings fagna í leikslok.
Leikmenn Víkings fagna í leikslok. mbl.is/Kristinn Steinn

Eins fjörugur og fyrri hálfleikurinn var í Víkinni í dag þegar FH kom í heimsókn í dag, varð sá seinni slakur en Víkingum tókst þó að skora í þeim báðum og vinna 2:0   Þar sem Stjarnan vann Val í Garðabænum tylla Víkingar sér í toppsætið í efstu deild karla í fótbolta, Pepsi Max deildinni.

Gestirnir úr Hafnarfirði mættu vígreifir til leiks og sóttu af miklum þunga fyrstu 15 mínúturnar þar sem Matthías Vilhjálmsson fékk opið skallafæri á 11. mínútu en Þórður Ingason í markinu varði glæsilega.  Víkingar vörðu virkið, fóru síðan byggja upp skyndisóknir sem FH-ingar áttu lítið svar við.  Pablo Punyed átti meðal annars skot efst í stöngina úr aukaspyrnu.  

Tvívegis komu Víkingar boltanum í netið en í bæði skiptin var dæmd rangstaða.   Í þriðja skiptið var ekki rangstaða og Nikolaj Hansen skallaði boltann af stuttu færi eftir frábæra sókn byggða upp af Pablo og Halldórs J.S. Þórðarsonar.  Staðan 1:0.  Dómarinn leyfði hörku í byrjun og leikmenn spiluðu samkvæmt því, af hörku svo að brotin voru mörg en dæmt á fæst af þeim. 

Síðari hálfleik var frekar daufur framan af, lítið um öflugar sóknir og fátt um færi.  FH eitthvað að sækja meira en færin urðu ekki merkilegt og Víkingar voru litlu skárri, einu sinni varði Gunnar Nielsen hjá FH úr góðu færi Erlings Agnarssonar á 80. mínútu.   Þegar leið að leikslokum var komin þreyta í menn en þá komst Adam Ægir Pálsson upp vinstri kantinn eftir frábæra sendingu Halldórs Smára Sigurðssonar þegar vörn FH var víðs fjarri, Adam gaf síðan fyrir á Nikolaj, sem skoraði af stuttu færi.

Heilt yfir voru Víkingar mun sprækari í þessum þessum leik, fljótari og einbeittari.  FH byrjaði betur en uppskar ekkert, það hafði kannski breytt leiknum ef Matthías hefði nýtt opna færið sitt í fyrri hálfleik.

Víkingur R. 2:0 FH opna loka
90. mín. Vuk Oskar Dimitrijevic (FH) á skot framhjá Ágæt tilraun en yfir.
mbl.is