Sigur Valskvenna með ærinni fyrirhöfn

Heiða Ragney Viðarsdóttir úr Stjörnunni með boltann í Garðabæ í …
Heiða Ragney Viðarsdóttir úr Stjörnunni með boltann í Garðabæ í kvöld en Ásdís Karen Halldórsdóttir sækir að henni. mbl.is/Unnur Karen

Með ærinni fyrirhöfn tókst Valskonum að landa sigri í Garðabænum í kvöld, 2:0, þegar liðin áttust við í 10. umferð efstu deildar kvenna í fótbolta og halda þar með efsta sæti deildarinnar. 

Leikurinn sem slíkur mun ekki lifa lengi í minninu, andleysi og laus við færi í fyrri hálfleik en aðeins lifnaði yfir honum eftir hlé þegar efsta lið deildarinnar tók völdin.

Leikurinn var ákaflega tíðindalítill framan af, barist um völdin víða um völlinn og einhverjar tilraunir til að sækja en fyrsta færið kom ekki fyrr en á 17. mínútu eftir frábæran kafla Stjörnukvenna sem léku af yfirvegun og ákveðni, héldu boltanum og byggðu upp góða sókn, sem lauk með skoti Gyðu Kristínar Gunnarsdóttur rétt utan vítateigs.  Boltinn small í slánni og niður þar sem Sandra Sigurðardóttir í markinu klófesti hann.   

Eitthvað voru færin að láta á sér kræla en ekki mörg og  Valskonur farnar að komast meira í takt við leikinn.

Fljótlega eftir hlé náðu Valskonur betri tökum á sínum leik, sóttu af meiri krafti og yfirvegað enda skapaði það nokkur ágæt færi.   Valur fékk gott færi til að skora fyrsta markið á 66. mínútu en þá varði Naya Regina Lipkens frá Ásdísi Karen Halldórsdóttir af stuttu færi. 

Mark lá í loftinu og á skoraði Mary Alice Vignola með skalla þegar hún elti langa sendingu Mist Edvarsdóttur inn að markteig Stjörnunnar og skallaði boltann yfir markmanninn.   

Markið kom Valskonum í meiri ham og á 81. mínútu skoraði Lára Kristín Pedersen með þrumuskoti frá vítateigslínunni eftir undirbúning Ásdísar Karenar.  Vel gert og 2:0 sigur Vals innsiglaður.

Naya Regina Lipkens stendur í marki Stjörnunnar en hún kom frá Víkingum, hefur leikið þar þrjá leiki og náði að taka stöðu Chanté Sandiford.  Betsy Doon Hassett er fjarri góðu gamni þar sem hún er á leiðinni til Tókýó þar sem hún leikur á Ólympíuleikunum með Nýja-Sjálandi.

Stjarnan 0:2 Valur opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert