„Tókum okkur til og kláruðum þær saman“

Sandra Sigurðardóttir markvörður Vals spyrnir boltanum frá markinu í leiknum …
Sandra Sigurðardóttir markvörður Vals spyrnir boltanum frá markinu í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ída Marín Hermannsdóttir var ein af þeim fjölmörgu Valskonum sem léku vel þegar liðið vann 6:1-stórsigur á Þrótti úr Reykjavík í úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni í kvöld.

Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik, þar sem Ída Marín skoraði fyrsta mark leiksins, voru Valskonur 2:1 yfir í hálfleik. Í þeim síðari tóku þær aftur á móti öll völd og völtuðu yfir gestina.

„Við vorum kannski aðeins slakar í fyrri hálfleik en síðan í seinni tókum við okkur bara til og kláruðum þær saman,“ sagði Ída Marín í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Spurð hverju Valur hafi breytt í hálfleik sem varð til þess að liðið valtaði yfir Þrótt í síðari hálfleiknum sagði hún:

Ída Marín Hermannsdóttir (fremst fyrir miðju) og stöllur hennar í …
Ída Marín Hermannsdóttir (fremst fyrir miðju) og stöllur hennar í Val höfðu sannarlega ástæðu til þess að fagna í kvöld. Unnur Karen

„Við breyttum pressunni okkar af því að hún var ekki alveg að ganga eins og við vildum í fyrri hálfleik og svo spiluðum við bara okkar leik. Við vitum hvað við erum góðar og að við getum spilað okkur vel saman.“

Varamenn Vals létu afar vel að sér kveða þar sem Fanndís Friðriksdóttir lagði upp tvö mörk, Clarissa Larisey skoraði eitt, Arna Eiríksdóttir skoraði eitt og Sólveig Jóhannesdóttir lagði upp eitt. Ída Marín sagði það vitanlega gulls ígildi.

„Við erum með mjög breiðan og sterkan hóp. Allar skiptingar sem við gerum eru frábærar fyrir leikinn og liðið. Við treystum á allar í hópnum.“

Valur og Breiðablik heyja nú harða baráttu á toppi deildarinnar þar sem Blikar eru tveimur stigum á eftir Valskonum í efsta sætinu. Blikar unnu fimm marka sigur í kvöld og það gerðu Valskonur líka, en Blikar eru með betri markatölu og því hafa Valskonur það bak við eyrað að reyna að skora sem mest í leikjum.

„Við bara skorum eins mikið og við getum og spilum okkar leik og ætlum að halda áfram á þessari braut,“ sagði Ída Marín að lokum.

mbl.is