Minnisvarði um föður knattspyrnunnar í Keflavík

Börn Hafsteins Guðmundssonar við minnisvarðann á Keflavíkurvelli.
Börn Hafsteins Guðmundssonar við minnisvarðann á Keflavíkurvelli. Ljósmynd/Eyþór Jóns/Alpha Agency

Fyrir leik Keflavíkur og Breiðabliks í úrvalsdeild karla í fótbolta í kvöld var afhjúpaður minnisvarði á Keflavíkurvelli um Hafstein Guðmundsson sem oft hefur verið kallaður faðir knattspyrnunnar í Keflavík.

Hafsteinn Guðmundsson fæddist árið 1923 og lést árið 2012. Hann var í fyrsta landsliði Íslands sem lék gegn Danmörku árið 1946 og spilaði einnig þrjá af næstu fimm landsleikjum Íslands þar á eftir. Hafsteinn lék með Val þar til hann kom til liðs við Keflvíkinga um miðjan sjötta áratug síðustu aldar.

Í tilkynningu frá undirbúningsnefnd segir:

Eyþór Jóns/Alpha Agency

Hafsteinn var aðalhvatamaður þess að Íþróttabandalag Keflavíkur (ÍBK) var stofnað árið 1956 og gegndi formennsku þess frá upphafi til 1975. Hann var spilandi þjálfari Keflavíkurliðsins á árunum 1958-1960.

Í formannstíð Hafsteins varð ÍBK fjórum sinnum Íslandsmeistari á mesta blómaskeiði knattspyrnunnar í Keflavík. Fyrst 1964 og síðan 1969,1971 og 1973 og ÍBK varð einnig bikarmeistari 1975.

Hafsteinn er með réttu nefndur faðir knattspyrnunnar í Keflavík. Hann var formaður Ungmennafélags Keflavíkur 1978-1981, sat í stjórn KSÍ og var landsliðseinvaldur 1969-1973.

Hafsteinn var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu, heiðurskrossi ÍSÍ, heiðurskrossi KSÍ, gullmerki ÍBK, heiðursgullmerki Keflavíkur, gullmerki Knattspyrnudeildar Keflavíkur og hann var heiðursfélagi UMFK. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert