„Fylkisliðið var kraftmeira“

Orri Hrafn Kjartansson og Ósvald Jarl Traustason í Árbænum í …
Orri Hrafn Kjartansson og Ósvald Jarl Traustason í Árbænum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis úr Breiðholti, var nokkuð sáttur við að fá stig gegn Fylki í Árbænum í kvöld í ljósi þess hvernig leikurinn spilaðist. 

„Úr því hvernig þetta spilaðist er ég nokkuð sáttur við að fá þetta stig,“ sagði Sigurður þegar mbl.is ræddi við hann. 

Markvörðurinn Guy Smit varði nokkrum sinnum frá Fylkismönnum í góðum marktækifærum í leiknum. „Hann varði vel og við eigum honum þetta stig að þakka. Mér fannst við skapa stöður til að búa til dauðafæri úr skyndisóknum en á heildina litið var Fylkisliðið kraftmeira en við. Þeir náðu yfirhöndinni fannst mér seint í fyrri hálfleik og höfðu hana megnið af síðari hálfleik.“

Sigurður þurfti að skipta tveimur varnarmönnum út af fyrir síðari hálfleikinn. „Bjarki fékk aðeins í nárann og Dagur fékk höfuðhögg undir lok fyrri hálfleiks.“

Í ljósi þessa var væntanlega ansi gott að halda markinu hreinu? „Já virkilega. Ég hrósaði varamönnunum í hástert fyrir þeirra innkomu. Það var til dæmis ekki ljóst fyrr en nokkrum sekúndum áður en síðari hálfleikur hófst að Dagur þyrfti að fara út af. Því var knappur tími til að koma almennilegum skilaboðum til Gyrðis um hans hlutverk en hann leysti verkefnið virkilega vel og mér fannst hann koma frábærlega inn í þetta.“

Hlynur Helgi Arngrímsson og Sigurður Heiðar Höskuldsson.
Hlynur Helgi Arngrímsson og Sigurður Heiðar Höskuldsson. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

Nýliðarnir í Leikni eru með 17 stig og virðast vera í ágætum málum nú þegar komið er fram í ágúst. „Ég held að við getum bara verið virkilega sáttir. Við reynum að horfa á frammistöðuna í leikjunum. Mér finnst við hafa bætt okkur jafnt og þétt sem lið. Við höfum átt góða leiki þótt þeir hafi ekki skilað stigum,“ sagði Sigurður Heiðar enn fremur. 

mbl.is