Rúnar með skýr skilaboð til stuðnings þolendum

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Ljósmynd/Guðmundur Bjarki

Rúnar Kristinsson, þjálfari karlaliðs KR í knattspyrnu, skartaði höfuðfati til stuðnings þolenda ofbeldis á meðan leik liðsins gegn Leikni úr Reykjavík stóð í gær og mætti sömuleiðis í viðtöl eftir leikinn með húfuna.

Á húfu hans stendur FO, sem stendur einfaldlega fyrir „fokk ofbeldi“. Þetta benti Gréta Rut Bjarnadóttir á á twitteraðgangi sínum í gær:

Vart hefur farið framhjá neinum sú mikla umræða undanfarið um ofbeldi af hendi íslenskra landsliðsmanna í knattspyrnu í garð kvenna, sem leiddi til þess að Guðni Bergsson sagði af sér sem formaður Knattspyrnusambands Íslands.

Í sumum tilfellum hafa verið lagðar fram kærur og í öðrum hafa mál verið til lykta leidd með sátt og greiðslum miskabóta.

Hafa spjót staðið á KSÍ sérstaklega undanfarna daga fyrir að hafa ekki tekið harðar á slíkum málum mörg síðustu ár og hafa sýnt af sér gerendameðvirkni í stað þess að styðja við þolendur.

mbl.is