Leikmenn hræddir við að segja eitthvað rangt

Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen á blaðamannafundi íslenska …
Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen á blaðamannafundi íslenska liðsins í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er mjög erfitt fyrir alla að finna réttu orðin,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við fjölmiðlamenn á blaðamannafundi á Zoom í dag.

Íslenska karlalandsliðið mætir Rúmeníu á fimmtudaginn kemur á Laugardalsvelli í undankeppni HM en mikið hefur gustað um Knattspyrnusamband Íslands undanfarna daga vegna þöggunar og meðvirkni með meintum gerendum.

„Ég er með 39 manna hóp inn í „búbblu“ á hóteli,“ sagði Arnar meðal annars.

„Þetta fólk hefur ekki gert neitt af sér en samt sem áður liggja allir undir grun. Það er erfitt að segja eitthvað rétt því það er einhvern veginn alltaf allt rangt.

Það þýðir samt ekki að okkur sé alveg sama. Fólk þarf að gera sér grein fyrir því að það er bara erfitt fyrir leikmennina að sitja fyrir svörum því þeir eru hræddir við að segja eitthvað rangt.

Ég sagði við Eið Smára Guðjohnsen á sunnudaginn að við gætum allt eins búist við því að leikmenn, sem myndu meiðast í leikjum á sunnudaginn, hefðu ekki kjark til að láta okkur vita að þeir væru meiddir.

Við erum komnir þangað núna að leikmenn eru bara hræddir og það er mjög slæmt, og erfitt,“ bætti landsliðsþjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert