Þjálfari Kórdrengja fékk langt bann

Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja.
Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Davíð Smári Lamude, þjálfari Kórdrengja í 1. deild karla í knattspyrnu, hefur verið úrskurðaður í fimm leikja bann fyrir framkomu sína í leik Kórdrengja og Fram í Lengjudeildinni sem fram fór á Domusnova-vellinum í Breiðholti á laugardaginn síðasta.

Þjálfarinn fékk að líta sitt annað rauða spjald í sumar í uppbótartíma en hann rauk tvívegis inn á völlinn, eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið, til þess að láta dómara leiksins Egil Arnar Sigurþórsson heyra það.

Davíð Smári verður því í leikbanni í lokaumferð Lengjudeildarinnar þegar Kórdrengir heimsækja Vestra á Ísafjörð en liðið er með 38 stig í fjórða sæti deildarinnar og á ekki möguleika á því að fara upp um deild.

Þá verður þjálfarinn í leikbanni þegar næsta tímabil hefst en ásamt því að hafa verið úrskurðaður í fimm leikja bann fengu Kórdrengir 15.000 króna sekt vegna brottvísunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert