Erfið ákvörðun en besta skref sem ég gat tekið

Kyle McLagan í Víkingstreyjunni í dag.
Kyle McLagan í Víkingstreyjunni í dag. mbl.is/Víðir Sigurðsson

Bandaríski knattspyrnumaðurinn Kyle McLagan kveðst viss um að hafa tekið rétta skrefið á sínum ferli með því að yfirgefa Fram og ganga til liðs við nýkrýnda Íslandsmeistara Víkings.

McLagan var kynntur til sögunnar hjá Víkingum í dag en þeir hafa samið við hann til tveggja ára. McLagan er 26 ára gamall miðvörður og er helmingurinn af því verkefni Víkinga að fylla skörð Kára Árnasonar og Sölva Geirs Ottesen sem hætta að þessu tímabili loknu.

„Ég held að þetta sé stórt skref í rétta átt. Þó ég þekki ekki mikið til úrvalsdeildarinnar þá hef ég fulla trú á sjálfum mér og mínum hæfileikum þannig að ég lít á þetta sem gott tækifæri frekar en einhverja hindrun. Svo kemur bara í ljós hversu stórt skrefið verður," sagði McLagen við mbl.is eftir að hann skrifaði undir samninginn við Víkinga í dag.

Hann kvaðst ekki hafa séð marga leiki með Víkingum í sumar en þó fylgst með þeim í næstsíðasta heimaleiknum í deildinni.

„Já, ég sá þá í leiknum við HK þar sem þeir unnu sannfærandi 3:0 sigur og stóðust vel þá pressu sem var á þeim. Svo hef ég séð til þeirra í fleiri leikjum og var m.a. á áhorfendapöllunum þegar Fram mætti Víkingi á undirbúningstímabilinu, þannig að ég kannast við þá og veit hvernig þeir spila.“

Kyle McLagan skallar boltann í leik með Fram gegn Selfossi. …
Kyle McLagan skallar boltann í leik með Fram gegn Selfossi. Hann skoraði 5 mörk fyrir Framara í 1. deildinni í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Flýgur heim á meðan Vestraleikurinn stendur yfir

Víkingar mæta Vestra í undanúrslitum bikarsins á morgun en McLagan sagðist ekki geta fylgst með öllum leiknum.

„Ég mun sjá eins mikið af honum og ég get en ég er á leið í flug á morgun og verð því farinn áður en honum lýkur. Ég er á leiðinni heim til Kansas City til að hitta fjölskyldu og vini og verð þar næstu vikur og mánuði. Það fer eftir því hvernig Arnar (Gunnlaugsson, þjálfari) vill hafa þetta en ég býst við því að koma aftur til Íslands seinnipartinn í janúar eða í byrjun febrúar en það kemur betur í ljós."

Þó McLagan sé frá Kansas City hefur hann ekki gert mikið af því að spila fótbolta á þeim slóðum.

„Nei, ekki mikið. Ég spilaði reyndar þar í yngri flokkum en fór síðan í menntaskóla og svo í Furman-háskóla sem var í sextán klukkutíma akstursfjarlægð að heiman og hef því ekki búið í Kansas City síðan ég var átján ára gamall. Ég fór reyndar þangað í stuttan tíma síðasta vetur þegar ég spilaði í smátíma með atvinnuliði í innifótbolta og það var frábær að spila frammi fyrir fjölskyldu og  vinum, og fyrir hönd heimaborgarinnar, en að öðru leyti hef ég ekki mikla reynslu af því að spila þar," sagði hinn 26 ára gamli McLagan.

Kyle McLagan í leik með Fram gegn Þór í sumar.
Kyle McLagan í leik með Fram gegn Þór í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Kom til Íslands vegna Aðalsteins og spilaði með Frederik

Hann hafði reynslu af því að spila í tvö ár sem atvinnumaður í Danmörku áður en hann kom til Íslands og lék þá með Roskilde í B-deildinni þar í landi. Hann sagði ekki gott að bera þá deild saman við íslensku úrvalsdeildina.

„Það er ekki einfalt en eflaust skref upp á við að fara í efstu deild á Íslandi. En það voru viðbrigði að koma til Roskilde og verða atvinnumaður. Íslenski fótboltinn er byggður upp á aðeins annan hátt en það var mikil áskorun að fara til Danmerkur. Þá vissi ég ekki hvernig ég væri staddur gagnvart því að spila í Evrópu, vissi ekki hvort ég væri samkeppnisfær þar og gæti staðið á eigin fótum í annari heimsálfu, en ég lærði heilmikið þar. Liðinu gekk ekki  vel en það voru gæði í deildinni og góður undirbúningur fyrir að spila í úrvalsdeildinni á Íslandi."

McLagan er með nokkur tengsl við Ísland og hann var með íslenskan samherja hjá Roskilde, markvörðinn Frederik Schram sem á að baki nokkra leiki með íslenska landsliðinu og hefur farið með því á stórmót.

„Já, ég spilaði með Frederik sem er frábær náungi og hæfileikaríkur markmaður. Mér fannst mjög gott að spila með honum og hafa hann fyrir aftan mig í markinu. En svo var ég með persónuleg tengsl við Ísland sem urðu til þess að ég gekk til liðs við Fram. Samningurinn minn í Danmörku var runninn út og kórónuveiran hafði mikil áhrif á liðin þar. Ég hefði getað verið þar áfram og mögulega fengið skammtímasamning en það gekk ekki upp að vera einn og félagslaus í Evrópu.

Ég hef áður verið í sambandi við Steina (Aðalstein Aðalsteinsson, aðstoðarþjálfara Fram) og hann fékk mig til að koma í Fram. Ég hafði kynnst honum því Arnór sonur hans spilaði með bróður mínum í háskólaliði Furman á sínum tíma og ég kom í heimsókn til Íslands árið 2018. Ég hafði því ákveðna hugmynd um að hverju ég gengi hérna, þó ég hefði reyndar komið að vetrarlagi," sagði McLagan.

Ótrúlegt tímabil með Fram

Hann kom til Fram í ágúst 2020 og lék síðustu átta leiki liðsinsí 1. deildinni, og síðan allt tímabilið í ár þar sem Fram tapaði ekki leik og vann deildina með yfirburðum. McLagan tapaði aðeins einum af þeim 29 deildarleikjum sem hann spilaði með Safamýrarliðinu, gegn Grindavík í september 2020.

„Já, þetta var einn tapleikur í deildinni og svo tveir í bikarkeppni. Þetta var frábær tími með Fram. Við áttum möguleika á að fara upp strax í fyrrahaust en í ár höndluðum við 1. deildina virkilega vel. Þetta  var ekki allt saman auðvelt en hlutirnir féllu með okkur á réttum stöðum  og ég tel að það hafi verið fyrst og fremst vegna góðrar vinnu á undirbúningstímabilinu og þeirra leikmanna sem Nonni (Jón Þ. Sveinsson þjálfari) fékk til að styrkja liðið. Þetta var ótrúlegt tímabil og frábært að geta kvatt Fram á svo góðum nótum," sagði McLagan og viðurkenndi að það hefði verið erfitt að fara úr Safamýrinni eftir að hafa verið kominn með liðinu upp í úrvalsdeildina.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun og frekar stressandi síðustu fjórar til sex vikur eftir að þetta kom upp. En ég tel að þetta hafi verið besta ákvörðunin og besta skrefið sem ég gat tekið á mínum ferli og því ákvað ég að taka boði Víkinga."

Mikil áskorun að koma til Víkings

Íslandsmeistararnir fá McLagan til sín þar sem þá vantaði tvo nýja miðverði til að fylla skörð Kára Árnasonar og Sölva Geirs Ottesen sem hætta eftir þetta tímabil. Bandaríkjamaðurinn sagði að það yrði ekki auðvelt að fylla í þeirra skörð.

„Margir segja að það verði mjög erfitt að koma í þeirra stað og Víkingar eigi erfiða tíma fyrir höndum án þeirra. En ég lít á þetta sem tækifæri, áskorun sem ég mun ekki víkja mér undan. Ég lít ekki á þetta þannig að ég muni á einhvern hátt koma í stað þeirra, heldur vonast ég til þess að gera stuðningsmenn Víkings ánægða og geta hjálpað félaginu að ná sínu markmiði á næsta tímabili. Kári er líka áfram í kringum liðið svo ég vonast til þess að geta lært eitthvað af leikmanni eins og honum sem á langan feril að baki í mörgum löndum. 

Stuðningsmenn og aðrir líta kannski á þetta á sem neikvætt fyrir Víking en ég lít á það sem upplagt tækifæri fyrir mig og hlakka mikið til," sagði Kyle McLagan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert