Öll mál flokkuð sem trúnaðarmál

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs gat ekki staðfest hvort hún væri …
Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs gat ekki staðfest hvort hún væri með mál á borði hjá sér er varða leikmenn íslenska karlalandsliðsins. mbl.is/Hari

„Lögum samkvæmt þá ber samskiptaráðgjafa að gæta trúnaðar í sínum störfum og því get ég ekki staðfest neitt varðandi þessi tilteknu mál,“ sagði Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs í samtali við mbl.is í dag.

Samkvæmt heimildum mbl.is er samskiptaráðgjafinn nú með sex mál til rannsóknar hjá sér sem snúa öll að meintum ofbeldis- og kynferðisbrotum leikmanna íslenska karlalandsliðsins.

Nýjar leiðbeiningar innan íþróttahreyfingarinnar kveða á um að öll ofbeldis- og kynferðisbrotamál, sem koma inn á borð íþróttahreyfingarinnar, skuli vísað beint til samskiptaráðgjafans.

„Öllum málum sem koma inn á borð samskiptaráðgjafa er tekið  alvarlega og ég býð öllum þeim sem vísa sínum málum inn á borð til mín að koma í viðtal til að kanna mál þeirra frekar,“ sagði Sigurbjörg.

„Það fer svo algjörlega eftir eðli málsins hvert framhaldið er. Ef málið varðar landslög þá upplýsi ég viðkomandi aðila um rétt þeirra, ef um fullorðna einstaklinga er að ræða. Ef um brot gegn börnum er að ræða er því vísað beint til barnaverndarnefndar.

Það er svo bara mjög misjafnt hvað einstaklingurinn vill sjálfur gera. Það er enginn að fara kæra mál fyrir hönd annarra þannig að mitt hlutverk er fyrst og fremst að upplýsa meinta brotaþola um stöðu þeirra. Það er svo bara þeirra að taka ákvörðun um framhaldið og næstu skref en geta þá fengið stuðning samskiptaráðgjafa við það.“

Mun Knattspyrnusamband Íslands fá bein svör frá þér varðandi þau mál sem sambandið hefur sent inn á borð til þín og hversu langan tíma mun það taka að vinna úr þeim?

„Að sjálfsögðu vinn ég öll mál í samstarfi við þá sem að málinu koma. Þegar við á fá aðilar  upplýsingar um framvindu mála, næstu skref og niðurstöður.

Varðandi tímarammann þá er hann mjög misjafn og fer eftir eðli mála. Ég reyni eftir bestu getu að vinna hratt en það tekst ekki alltaf og fyrir því eru ýmsar ástæður,“ bætti Sigurbjörg við í samtali við mbl.is.

Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs. Ljósmynd/FSÍ
mbl.is

Bloggað um fréttina