„Ætla að verða bestur“

Arnar Gunnlaugsson bauð Birni Snæ Ingason velkominn til Víkings í …
Arnar Gunnlaugsson bauð Birni Snæ Ingason velkominn til Víkings í dag. mbl.is/Aron Elvar

Knattspyrnumaðurinn Birnir Snær Ingason segir að það sé frábær tilfinning að vera kominn í raðir Íslandsmeistara Víkings en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið.

Birnir Snær, sem er 24 ára gamall kantmaður, hefur leikið í hálft þriðja ár með HK og kveður Kópavogsliðið sem markahæsti leikmaður þess í efstu deild frá upphafi með 12 mörk. HK féll úr deildinni í haust eftir þriggja ára dvöl og eftir það var ljóst að Birnir, sem hefur verið einn besti leikmaður liðsins síðustu ár, myndi róa á önnur mið.

„Tilfinningin er frábær. Síðasta tímabil var vonbrigði með HK en það er frábært að vera búinn að skrifa undir hjá Íslandsmeisturunum," sagði Birnir Snær við mbl.is nú í hádeginu þegar hann var formlega kynntur til leiks hjá Víkingum.

Hann sagði að Víkingar hefðu sýnt sér strax mestan áhuga. „Það voru einhver fleiri lið sem höfðu samband en mér leist best á Víkingana. Ég vissi af áhuganum hjá þeim, þeir gerðu HK tilboð og það var samþykkt. Ég átti góðan fund með Arnari Gunnlaugssyni þjálfara og var mjög hrifinn af hugmyndafræðinni hans," sagði Birnir.

Hann kvaðst ekki hafa verið með í sigtinu að skipta um félag á meðan HK var í efstu deild.

„Mig langar náttúrlega að spila í efstu deild, og ekki bara það, mig langar að spila með liði sem berst um titla. Þá er hvergi betra að vera en hjá Íslandsmeisturunum. Áður en ég skrifaði undir hjá Víking var staðan bara sú að ég ætlaði að vera áfram hjá HK.“

Aðspurður um hans markmið í fótboltanum sagði Birnir að sín persónulegu markmið væru einfaldlega þau að verða bestur. 

„Ég hef alltaf haft þá trú á sjálfum mér og það verður þannig áfram. Ég er nú ekki búinn að setjast niður með liðinu og ræða markmiðin en ég gef mér það að við ætlum okkur að ráðast á báða titlana. Síðan verður stór bónus að spila í Evrópukeppni næsta  sumar. Það er eitt það skemmtilegasta við þetta. Ég fékk að spila tvo Evrópuleiki með Val og það var frábær upplifun," sagði Birnir Snær Ingason við mbl.is.

mbl.is