Gat ekki logið að stelpunum

Sveindís Jane, Svava Rós og Dagný fagna marki Dagnýjar og …
Sveindís Jane, Svava Rós og Dagný fagna marki Dagnýjar og fyrsta marki Íslands í gær. mbl.is/Unnur Karen

„Ég tek ekki þátt í svona umræðu,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, á blaðamannafundi íslenska liðsins í höfuðstöðvum KSÍ í gær.

Íslenska liðið vann öruggan 5:0-sigur gegn slöku liði Kýpurs í C-riðli undankeppni HM 2023 á Laugardalsvelli í gær en umræðan fyrir leikinn snerist að mörgu leyti um það hversu mörg mörk íslenska liðið myndi skora í leiknum.

„Ég vildi fyrst og fremst fókusa á það að við værum að gera hlutina bæði rétt og vel í aðdraganda leiksins og var því ekki að hugsa um hversu mörg mörk við myndum hugsanlega skora.

Sem þjálfari vill maður alltaf forðast allt sem viðkemur vanmati og maður vill þess vegna halda umræðunni á eðlilegum grundvelli þannig að leikmenn væru einbeittir á leikinn sjálfan, ekki hversu mörg mörk við myndum skora,“ sagði Þorsteinn.

Lið Kýpurs fór varla yfir miðju allan leikinn og hafði liðið tapað síðustu tveimur leikjum sínum í undankeppninni 0:8 gegn Tékklandi og Hollandi.

„Ég gat ekki logið því fyrir leik að stelpunum að þetta Kýpurlið væri rosalega gott. Ég reyndi auðvitað að stýra umræðunni en það var erfitt fyrir mig að sýna þeim einhverjar klippur og segja þeim svo að þær þyrftu að varast þetta og hitt.

Ég var fyrst og fremst að reyna að stýra umræðunni í þá átt að leikmennirnir myndu mæta einbeittir til leiks. Þegar ég talaði um agaðan varnarleik Kýpurliðsins þá meinti ég það, þótt þær séu ekkert mjög góðar í því að verjast,“ bætti Þorsteinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert