Þessi strákur er búinn að gefa svo mikið

Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi.
Arnar Þór Viðarsson á blaðamannafundi. Ljósmynd/Robert Spasovski

„Leikurinn spilaðist eins og við bjuggumst við,“ sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, eftir 1:1-jafntefli við Úganda í vináttuleik í An­ta­lya í Tyrklandi í dag. Jón Daði Böðvarsson kom Íslandi yfir strax á 6. mínútu en Kaddu Patrick jafnaði úr víti á 31. mínútu og þar við sat.

„Þetta voru allt lokaðir leikir sem við skoðuðum með þeim fyrir leikinn og þessi leikur var það einnig og ekki mikið af færum. Við byrjum vel, skorum gott mark en síðustu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik gefum við víti og gerum of mörg mistök. Við misstum tökin á einn á einn stöðuna og við vorum að tapa einvígjum,“ útskýrði landsliðsþjálfarinn á blaðamannafundi eftir leik.

Arnar var ánægður með markaskorarann Jón Daða, sem hefur ekkert spilað með Millwall á leiktíðinni. „Ég er sérstaklega ánægður fyrir hönd Jóns Daða. Hann skoraði frábært mark og þessi strákur er búinn að gefa svo mikið. Ég veit þetta er rosalega mikilvægt fyrir hann að spila þennan leik eftir rosalega erfiða mánuði með Millwall. Hann er mikill atvinnumaður sem hefur æft vel,“ sagði Arnar um Selfyssinginn.

Landsliðsþjálfarinn á von á að þeir leikmenn sem spiluðu ekki í dag fái mínútur gegn Suður-Kóreu á laugardaginn kemur. „Já, það er ætlunin. Við ætlum að gefa öllum leik. Ég talaði um Damir fyrir verkefnið, ég er búinn að vera mjög hrifinn af honum. Við sjáum hvernig við leggjum leikinn upp á móti Suður-Kóreu,“ sagði Arnar Þór Viðarsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert