Enn einn bikarinn í Fossvoginn

Leikmenn Víkings fagna í leikslok.
Leikmenn Víkings fagna í leikslok. mbl.is/Óttar Geirsson

Víkingur úr Reykjavík sigraði Breiðablik 1:0 í leik liðanna í Meistarakeppni KSÍ á Víkingsvelli í kvöld. Þetta er í þriðja sinn sem Víkingur vinnur Meistarakeppni KSÍ en liðið vann þessa keppni árið 1982 og 1983. Það var Erlingur Agnarsson sem skoraði sigurmark Víkinga á 23. mínútu.

Víkingur byrjaði mun betur á Víkingsvelli í kvöld og það munaði ansi litlu að Damir Muminovic hefði skorað sjálfsmark strax eftir nokkrar sekúndur. Vikingur sótti mikið upp hægri kantinn þar sem Helgi Guðjónsson spilaði og það var einmitt hann sem átti sendinguna á Erling þegar hann skoraði mark Víkinga á 23. mínútu leiksins.

Stuttu síðar átti Ari Sigurpálsson gott skot að marki Breiðabliks sem varnarmenn náðu að komast fyrir en í kjölfarið átti Karl Friðleifur Gunnarsson skot yfir mark Breiðabliks.

Í lok fyrri hálfleiks byrjuðu leikmenn Breiðabliks aðeins að bíta frá sér en náðu ekki að koma sér í alvöru færi. Kristinn Steindórsson fékk besta færið en hann fékk sendingu frá Jasoni Daða en Kristinn náði ekki valdi á boltanum og því varð ekkert úr þessu.

Í seinni hálfleik byrjuðu Víkingar með látum en það breyttist þegar Pablo Punyed fékk að líta gula spjaldið á 57. mínútu en þar fékk hann sitt annað gula spjald þannig að það rauða fór á loft. Víkingur spilaði því einum manni færri það sem eftir var leiksins.

Breiðablik var meira með boltann eftir þetta en náði ekki að skapa sér nægilega góð færi. Besta færið fékk Kristinn Steindórsson á 86. mínútu en Ingvar Jónsson varði mjög vel frá honum.

Það eru því Víkingar sem vinna Meistarakeppni KSÍ 2022 en það styttist heldur betur í fyrstu umferðina í Bestu-deildinni því mánudaginn 18. apríl mætir Víkingur liði FH á Víkingsvelli í upphafsleik mótsins. Daginn mætir Breiðablik liði Keflavíkur á Kópavogsvelli.

Víkingur R. 1:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Það er fimm mínútum bætt við venjulegan leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert