Elvis sá rautt í Vestmannaeyjum

Alex Davey úr ÍA verst Guðjóni Erni Hrafnkelssyni úr ÍBV …
Alex Davey úr ÍA verst Guðjóni Erni Hrafnkelssyni úr ÍBV í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Aðstæður voru eins og best verður á kosið þegar ÍBV tók á móti ÍA á Hásteinsvelli í dag í Bestu deild karla. Um mikinn baráttuleik var að ræða þar sem liðin enduðu á að deila stigunum með 0:0 jafntefli.

Eyjamenn voru í næst neðsta sæti fyrir leikinn með 2 stig. Skagamenn voru hinsvegar tveim sætum ofar, í því níunda, með fimm stig. Það var því um hálfgerðan botnslag að ræða, sé litið framhjá því að lítið er búið af mótinu.

Þrátt fyrir markaleysið er nóg um að fjalla eftir þennan leik. Eyjamenn voru heilt yfir betri og sköpuðu sér nokkur ágætis færi. Skagamenn áttu erfitt uppdráttar en áttu samt sem áður sínar rispur og hefðu alveg getað sett sitt mark á leikinn með smá heppni.

Eftir tíðindalítinn fyrrihálfleik, þar sem ÍBV réði ferðinni, einkenndist síðari hálfleikur af gulum og rauðum spjöldum, dramatík og rifrildum meðal samherja.

Á 66. mínútu fékk Elvis Bwomono, hægri bakvörður ÍBV, sitt annað gula spjald, og þ.a.l. rautt, eftir kíting við leikmann ÍA þegar boltinn var ekki í leik. Elvis hafði fengið sitt fyrra gula rúmum tíu mínútum áður fyrir að slá boltann úr höndum leikmanns ÍA þegar hann freistaði þess að taka snöggt innkast. Tvö ódýr gul spjöld hjá Elvis Bwomono og Eyjamenn einum færri.

Þegar Elvis fékk seinna gula spjaldið sitt voru Eyjamenn að gera skiptingu þar sem m.a. Guðjón Pétur Lýðsson, miðjumaður ÍBV, fór af velli. Hann virtist vera mjög óánægður með ákvörðun Hermanns og lét óánægju sína í ljós áður en hann fór beint inn í búningsklefa.

Liðsmunurinn virtist ekki há Eyjamönnum sem héldu áfram að þjarma að Skagamönnum. Þegar um fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma braut Jón Gísli Eyland, leikmaður ÍA, á Arnari Breka Gunnarsyni, varamanni ÍBV, og uppskar sitt annað gula spjald.

Bæði lið með rautt spjald á skýrslunni, en eins og áður sagði einkenndist síðari hálfleikur meðal annars af spjöldum. Erlendur dómari flaggaði gula spjaldinu níu sinnum í síðari hálfleik.

Í uppbótartíma átti Telmo Castanheira, miðjumaður ÍBV, stórkostlega sendingu inn á Andra Rúnar, framherja ÍBV, sem var fljótur að láta sig falla þegar hann fann snertingu frá varnarmanni ÍA. Erlendur þurfti ekki að hugsa sig um tvisvar og var fljótur að benda á punktinn. Í kjölfarið fór undarleg atburðarrás af stað hjá leikmönnum ÍBV.

Hans Mpongo, glænýr leikmaður ÍBV sem hafði komið inná sem varamaður á 65. mínútu, tók þá boltann og virtist harðákveðinn að taka vítaspyrnuna. Andri Rúnar, sem er líklega fyrirfram ákveðin vítaskytta Eyjamanna, og aðrir leikmenn ÍBV reyndu að tala fyrir honum án þess að Hans léti segjast. Að endingu gaf Hans sig þó og fór Andri Rúnar eðlilega á punktinn. Honum brást hinsvegar bogalistin og Árni Snær, markmaður ÍA, varði boltann upp í slánna og út. Virkilega vel gert hjá Árna Snæ, en ekki ólíklegt að atburðarrásin fram að vítaspyrnunni hafi haft einhver áhrif á Andra Rúnar.

Fljótlega eftir vítið flautaði Erlendur leikinn af og Eyjamenn sársvekktir með að hafa ekki náð að stela sigrinum í dag, sem þeir hefðu vissulega átt skilið. Skagamenn voru brattir og fara líklega sáttir heim í kvöld eftir að hafa bjargað stiginu undir lokin.

Eftir leikinn er ÍBV enn þá í 11. sæti með 3 stig, jafnmörg og Leiknir sem situr á botninum. Það stefnir því í harða botnbaráttu hjá Eyjamönnum. Skagamenn eru með 6 stig og sitja í 8. sæti. Stigið í dag er þeirra fyrsta í fjórum umferðum og uppskeran eflaust minni en menn höfðu vonast eftir.

ÍBV 0:0 ÍA opna loka
90. mín. A.m.k. fjórum mínútum bætt við.
mbl.is